Brýnt að leiðrétta „kynjaskekkju“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setti jafnréttisþing í Hörpu í morgun.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setti jafnréttisþing í Hörpu í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, þakkaði félagsmönnum Eflingar fyrir kjarabaráttu sína sem þeir vöktu athygli á á jafnréttisþingi Hörpu, í setningarræðu sinni. Hún tók fram að sú umræða sem hafi spunnist í kringum kjarabaráttu Eflingar skipti máli í samhengi við jafnrétti.

„Í henni sjáum við kynjaðan veruleika á íslenskum vinnumarkaði en líka ákveðna vangetu til að þróa lausnir utan hins hefðbundna samskiptalíkans hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins,“ sagði Katrín. Hins vegar væri þetta mál ekki leyst með einum kjarasamningi því viðfangsefnið er stærra en það. Það kallar á víðtæka sátt og umræðu um það og lausnir, að mati Katrínar.

Katrín tók fram að stigin hafa verið mörg framfararskref í vinnumarkaðsmálum t.d. með stofnun Þjóðhagsráðs, þar sem stóru málin væru rædd, sem og stofnun launatölfræðinefndar. Hún bindur miklar vonir við að þessi umræðugrundvöllur sem þarna hefur skapast hafi áhrif til batnaðar. Þetta væri þáttur í því að leita leiða við að „leiðrétta þessa kynjaskekkju,“ sagði Katrín. Lífskjarasamningar ríkisstjórnarinnar eru einnig skref í rétta átt, sérstaklega þær aðgerðir sem snerta barnafólk, sagði Katrín.

Samhliða þessu dró hún fram það sem hefur áunnist í jafnréttisbaráttunni meðal annars lög um kynrænt sjálfræði, lög um þungunarrof og lengingu fæðingarorlofsins.

Fjölmennt er á Jafnréttisþinginu.
Fjölmennt er á Jafnréttisþinginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Margt má enn bæta í jafnréttismálum og sýndi skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála á árunum 2018 – 2019, slíkt glögglega. Katrín opnaði þingið með því að leggja fram skýrsluna.

Í henni kemur meðal annars fram að hefðbundna verkaskipting kynjanna er enn við lýði og er einkennandi fyrir vinnumarkað og heimilislíf þar sem konur sinna frekar umönnun og heimilishald hér á landi. Konur eru líklegri en karlar til að sinna ólaunuðum störfum, þær taka að sér ummönnun barna og annarra skyldmenna og eru líka líklegri til að sinna illa launuðum störfum.

Hildur Knútsdóttir rithöfundur er aðalfyrirlesari á þinginu.
Hildur Knútsdóttir rithöfundur er aðalfyrirlesari á þinginu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Silja Bára Ómarsdóttir er fundarstjóri á Jafnréttisþinginu.
Silja Bára Ómarsdóttir er fundarstjóri á Jafnréttisþinginu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert