Færa sig í veltukerfi í Grandaskóla á morgun

Veltukerfi verður komið á í Grandaskóla á morgun. Vogaskóli bætist …
Veltukerfi verður komið á í Grandaskóla á morgun. Vogaskóli bætist svo líklega við á mánudaginn. Ljósmynd/Reykjavík

Á morgun er áformað að notast verði við svokallað veltukerfi í Grandaskóla vegna verkfalls Eflingar að því gefnu að samningar náist ekki. Þýðir þetta að ákveðnum hluta skólabyggingarinnar verður lokað sem mun hafa áhrif á kennslu, en árgangar munu skiptast á að mæta í skólann. Á mánudaginn er svo búist við að Vogaskóli bætist við og taki upp veltukerfi.

Í dag féll kennsla niður í Réttarholtsskóla, en þar eru 450 nemendur við nám. Á morgun er áformað að 8. og 9. bekkur komi í skólann, en fara á yfir fyrirkomulag við fjarkennslu sem notast verður við. Þá greindi mbl.is frá því fyrr í dag að skólastjóri ætli sér að þrífa hluta skólans til að hægt sé að halda uppi kennslu fyrir 10. bekk.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Helgi Grímsson, sviðstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við mbl.is að fyrir utan Réttarholtsskóla og Grandaskóla eigi aðrir skólar að halda út þessa vikuna. Hann segir fyrirséð að ef verkfallið haldi lengi áfram muni það hafa umtalsverð áhrif á kennslu í fjórum skólum í heildina. Við bætist Hamraskóli, en ekki sé víst enn þá hvenær skerða þurfi þjónustu þar. Þá segir hann ekki útilokað að áhrifa byrji að gæta í fleiri skólum, en foreldrar barna munu fá nánari upplýsingar ef til þess kemur.

Segir Helgi að það sé samt helst í þessum fjórum fyrrnefndu skólum þar sem hlutfall starfsfólks sem vinni samkvæmt kjarasamningum Eflingar sé hátt og þeir verði því fyrir mestum áhrifum.

Staðan með áhrif verkfalla á leikskóla er áfram óbreytt, en 1.500 börn eru á hverjum degi án þjónustu og þá bætist við að stór hluti til viðbótar lendir í skertri þjónustu að sögn Helga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert