Fíflaðist með byssu

mbl.is/Eggert

Tilkynnt um ungan mann vera að handleika hlut sem talinn hafi verið byssa í Austurbænum (hverfi 105) um eittleytið í nótt. 

Um er að ræða 17 ára pilt sem var farþegi í bifreið sem var lagt í bifreiðastæði við hús þar sem skólaball var haldið. 

Pilturinn var handtekinn en ætluð byssa fannst ekki. Hann var með hótanir við lögreglu og var færður á lögreglustöð þar sem foreldri kom síðan og sótti piltinn. 

Á lögreglustöð var rætt við hann að viðstöddu foreldri og sagðist hann þá hafa verið að fíflast með loftbyssu og byssan ætti að vera í bifreiðinni. Málið verður tilkynnt til barnaverndar að því er segir í dagbók lögreglu.

Tilkynnt var um innbrot í skóla í Austurbænum (hverfi 108) í nótt en ekki liggur fyrir hvort einhverju var stolið.

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í Breiðholti (hverfi 109) í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Í nótt var síðan annar ökumaður stöðvaður í sama póstnúmeri en hann er grunaður um ölvun við akstur og akstur án réttinda þ.e. hafði ekki endurnýjað ökuréttindi sín.   

Upp úr miðnætti var ökumaður stöðvaður í Árbænum sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna.

Um eitt í nótt var síðan bifreið stöðvuð á Vesturlandsvegi og er ökumaðurinn grunaður um ölvun við akstur.

mbl.is