Garún þótti vera besti bjórinn

Bruggararnir Árni Theodór Long og Sturlaugur Jón Björnsson skáluðu fyrir …
Bruggararnir Árni Theodór Long og Sturlaugur Jón Björnsson skáluðu fyrir áfanganum. Ljósmynd/Hari

Árleg útnefning bjórsamfélagsins RateBeer á bestum bjórum ársins var kynnt á dögunum. Venju samkvæmt voru útnefndir sigurvegarar í hverju landi auk þess sem listi yfir bestu brugghús heims var opinberaður. RateBeer nýtur vinsælda meðal bjórunnenda í Bandaríkjunum og því mótast niðurstöðurnar nokkuð af því hvaða bjórar rata vestur um haf.

Besti bjór ársins 2019 frá Íslandi var valinn Garún Nr. 19.3 frá Borg brugghúsi. Þessi bjór er af Imperial Stout-gerð og hefur fengið að þroskast á bourbon-tunnum. Garún Nr. 19.3 var aðeins framleiddur í takmörkuðu upplagi og að því er fram kemur á Facebook-síðu Borgar er hann uppseldur en einhverjar flöskur kunna að leynast á börum eða veitingahúsum.

Besta brugghús ársins á Íslandi var Einstök Ölgerð. Eins og kunnugt er hefur Einstök náð ágætis útbreiðslu í Bandaríkjunum og bjórar brugghússins hafa vakið athygli.

Þá hlaut bjórinn Lava frá Ölvisholti sömuleiðis verðlaun. Lava þótti einn af þremur bestu bjórum ársins á heimsvísu í flokki reyktra bjóra (Smoked – other). Umræddur bjór hefur um langt árabil vakið athygli í bjórheiminum og hefur verið reglulega fluttur út og seldur.

Besti bjórbarinn á Íslandi þótti vera Micro Bar við Vesturgötu í Reykjavík.

Bestu brugghús veraldar eru Hill Farmstead, Side Project, Trillium, Tree House og Cigar City. 

Íslenskt bjóráhugafólk kannast eflaust vel við ýmis brugghús sem eru á lista yfir 100 bestu brugghúsin enda hafa mörg þeirra kynnt sig á bjórhátíð inni á Kex. Þar á meðal eru Tired Hands, Other Half, Cloudwater, Evil Twin og To Øl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert