Í farbanni vegna kjálkabrots

Landsréttur í Kópavogi.
Landsréttur í Kópavogi. Ljósmynd/Hanna

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að maður skuli sæta farbanni vegna gruns um líkamsárás.

Bannið var þó stytt um einn dag og rennur það út fimmtánda mars í stað þess sextánda.

„Varnaraðili er erlendur ríkisborgari og má ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar verði honum ekki gert að sæta farbanni,“ segir í niðurstöðu Landsréttar.

Héraðsdómur úrskurðaði í málinu 16. febrúar en málinu var áfrýjað til Landsréttar tveimur dögum síðar.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að maðurinn er grunaður um að hafa veist að brotaþola að kvöldi laugardagsins 15. febrúar á gistiheimili og slegið hann hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert