Með stjörnum í Nashville

Stefan Mørk, Anna Hansen, Bill O’Hanlan, Megan Barker og Anders …
Stefan Mørk, Anna Hansen, Bill O’Hanlan, Megan Barker og Anders Bo.

Tónlistar- og söngkonan Anna Hansen, sem býr í Kaupmannahöfn, hefur verið á ferðinni heimsálfa á milli að undanförnu. Hún er nú við lagasmíðar og söng í Bangkok í Taílandi, en var í Nashville í Bandaríkjunum í liðinni viku að kynna fyrsta lag sitt, sem hún gaf út 7. febrúar síðastliðinn.

„Countrylagið“ Grace er á streymisveitum og Youtube en Anna samdi það í samvinnu við Stefan Mørk og Lars Andersen. „Nashville er „höfuðborg“ country-tónlistarinnar og því fór ég þangað daginn sem lagið kom út, bæði til að kynna það og fylgja eftir tengslaneti sem ég byrjaði að byggja þar upp í fyrra, til þess að semja lög með lagahöfundum á svæðinu og til að sækja innblástur í tónlistarlíf borgarinnar,“ segir hún.

Anna spilaði á The George Jones og The Local í Nashville, þar sem lagahöfundar spiluðu tvö til þrjú frumsamin lög hver. Auk þess kom hún fram með nokkrum lagahöfundum, sem hún segir að hafi allir verið tilnefndir þrisvar til fjórum sinnum til Grammy-verðlauna. Hún segir mikið um það að lagahöfundar hittist og semji saman í borginni og hún hafi fengið þó nokkur tilboð, eftir að hún kom fram, um að vinna með fólki. „Við kærastinn minn, gítarleikarinn Anders Bo, vorum að grínast með það að í Nashville hittir maður ekki fólk og stingur upp á að hittast í kaffi, heldur er aðalsetningin „við þyrftum endilega að hittast og prófa að semja saman“.“

Fleiri lög og kynningar

Þegar Anna var í grunnskóla lærði hún á klarínett og á aldrinum 14 til 19 ára var hún í klassísku söngnámi í Söngskólanum í Reykjavík. Hún flutti til Danmerkur 2008 og útskrifaðist sem söngkennari frá Complete Vocal Institute 2014. Síðan hefur hún unnið sem söngkennari þar og í öðrum tónlistarskólum í Kaupmannahöfn auk þess að starfa sem söngkona í hinum ýmsu verkefnum. Nýlega samdi hún texta og söng tvö lög fyrir norsk/danska Netflix-þáttinn Ragnarok, þar sem Gísli Örn Garðarsson er í stóru hlutverki. „Textinn er á íslensku,“ segir hún og lofar verkefnið. „Ég hef haft mjög mikið að gera, sérstaklega undanfarin þrjú til fjögur ár, og núna fannst mér loksins kominn tími á að gefa út mína eigin tónlist.“

Fyrir skömmu var Anna kölluð inn í upptökustúdíó í Kaupmannahöfn með ísraelskum listamanni og upptökustjóra hans frá Los Angeles. Hann bauð kærustuparinu til Taílands til að vinna með sér í upptökustúdíói, sem hann leigði í Bangkok, og semja meira. Anna segir að eftir vinnuna í Bangkok og nokkurra daga frí liggi leiðin aftur í hversdagsleikann í Kaupmannahöfn. Stefnan sé að halda áfram að gefa út lög og koma tónlist sinni frekar á framfæri í Danmörku og á Íslandi. „Planið er svo að fara fljótlega aftur til Nashville og fylgja ferðinni eftir, hamra járnið á meðan það er heitt og vera í sambandi við fólkið sem ég hef kynnst. Það er ekki á hverjum degi sem maður hefur tækifæri til þess að vinna með fólki, sem hefur gefið frá sér vinsæl lög og er með margar Grammy-tilnefningar á bakinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert