Niðurstaðan afgerandi eins og búist var við

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. mbl.is/Eggert

„Þetta er mjög afgerandi niðurstaða að mínu mati,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, en félagsmenn aðildarfélaga BSRB, alls tæplega 18.000 manns hafa ákveðið að grípa til verkfallsaðgerða sem eiga að hefjast 9. mars. Sonja Ýr segir að þessi niðurstaða hafi verið viðbúin.

„Aðildarfélögin eru búin að eiga í miklu og góðu samtali við sitt bakland og þau finna fyrir miklum samhug og samstöðu, þannig að þau töldu að það mætti búast við þessu og þetta endurspeglar í raun það sem þau hafa verið að upplifa á síðastliðnum vikum,“ segir Sonja um niðurstöðurnar.

Aðgerðirnar sem nú hefur verið boðað til verða tvískiptar, ákveðnir hópar fara strax í ótímabundin verkföll frá 9. mars en aðrir og mun stærri hópar leggja niður störf ákveðna daga, 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. og 26. mars og 31. mars og 1. apríl og ef ekki semst fyrir 15. apríl hefja ótímabundin verkföll allra þessara tæplega 18.000 opinberu starfsmanna sem eru í félögum innan vébanda BSRB.

Sonja segir að áhrifanna af ótímabundna verkfallinu sem hefst 9. mars muni helst gæta á höfuðborgarsvæðinu, þar sem starfsmenn grunnskóla og frístundaheimila eru á meðal þeirra sem leggja munu störf. Í Reykjavíkurborg munu yfir 1.300 starfsmenn á þessum stöðum og fleirum leggja niður störf frá 9. mars, náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Starfsmenn Garðabæjar og HSS leggja ekki niður störf

Alls greiddu 10.258 félagsmenn aðildarfélaganna atkvæði, eða 65,58%. Hvert og eitt aðildarfélag – og raunar hver og einn hópur innan stakra félaga – þarf svo að ná 50% þátttökuhlutfalli og meirihluta atkvæða til þess að geta boðað til verkfalls. Það tókst ekki á tveimur stöðum, samkvæmt niðurstöðum frá BSRB.

Starfsmannafélag Garðabæjar náði þannig ekki tilskyldri þátttöku og því munu starfsmenn Garðabæjar ekki leggja niður störf í boðuðum aðgerðum. Þátttakan var 40,6%, en 72,9% þeirra 221 starfsmanna sem tóku afstöðu vildu leggja niður störf.

Einnig var þátttakan undir mörkum hjá ríkisstarfsmönnum innan Starfsmannafélags Suðurnesja, en þar greiddu 45,2% félagmanna atkvæði, 19 af 42. Þeir starfsmenn starfa hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og munu því ekki taka þátt í boðuðum aðgerðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert