Orðið heimilisofbeldi mikið tabú

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Hari

„Þetta er hápólitískt mál núna hérna í Rússlandi,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG. Hún var gestur á ráðstefnu gegn kynbundnu ofbeldi í Jeketerínburg í Rússlandi en heimilisofbeldi er mikið tabú þar í landi.

Rósa segir að allt leiki á reiðiskjálfi í Rússlandi vegna hugmynda um ný lög um heimilisofbeldi. Ítrekað hefur verið fjallað um áskoranir til rússneskra stjórnvalda að herða lög um heimilisofbeldi. Ráðstefnan var haldin í samráði við Evrópuráðið, félagsmálaráðuneyti Rússlands og skrifstofu mannréttindastjóra Rússlands.

Greint var frá því í desember að unnið væri að nýjum lögum um heimilisofbeldi en hingað til hafi ekki verið almennileg lög eða lagaleg skilgreining á því í Rússlandi.

„Nýverið voru gerðar breytingar á hegningarlögum í Rússlandi til að lina refsingar við því að berja sambýlisfólk sitt,“ segir Rósa. Hún bendir á að Rússland og Aser­baíd­sj­an séu einu löndin sem hafi ekki undirritað Istanbúlsamninginn, sem var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011.

„Þegar Rússar eru komnir inn í Evrópuráðið eftir fimm ára fjarveru liggur á að þeir uppfylli sínar aðlþjóðlegu skuldbindingar og skrifi undir þann samning.“

Umræðan kom á óvart

Rósa segir að umræðan á ráðstefnunni hafi komið sér svolítið á óvart en þar ræddu meðal annars sérfræðingar í ofbeldi gegn konur, aðstoðarráðherra félagsmála og umboðsmenn héraðsþinga málin. „Það var mun meiri andstaða við Istanbúlsamninginn af þeirra hálfu en ég átti von á, eiginlega miklu meiri andstaða.Það sást líka greinilega í viðbrögðum við ræðunni minni sem fjallaði um kosti Istanbúlsamningsins. Það voru ansi margir ósammála mér.”

Hún segir að stuðningsmenn hertra laga um heimilisofbeldi og Istanbúlsamningsins séu smeykir og andstaðan sé greinileg. 

„Það er áhugavert að sjá hvernig hægri popúlistar nýta sér Istanbúlsamninginn til að breiða út misskilning með stuðningi rétttrúnaðarkirkjunnar að sáttmálinn muni leysa upp fjölskyldur, þegar verið að vernda fjölskyldur með sáttmálanum með því að koma í veg fyrir ofbeldi,“ segir Rósa.

Auk þess að sækja ráðstefnu skoðaði Rósa meðal annars athvarf fyrir konur sem eru þolendur ofbeldis. „Það var mjög áhugavert og mikið af fólki sem er að vinna vel og gerir mjög góða hluti í þessum málaflokki en um leið er umhverfið soldið sérkennilegt og hamland. Til að mynda forðast margir Rússar orðið heimilisofbeldi og tala um athvörf fyrir konur í erfiðum fjölskylduaðstæðum.“

mbl.is