Rafmagn fór af í Ólafsvík þegar stæða brotnaði

Þessi stæða brotnaði í óveðri á Snæfellsnesi snemma í morgun.
Þessi stæða brotnaði í óveðri á Snæfellsnesi snemma í morgun. Ljósmynd/Frans Friðriksson

Rafmagn fór af Ólafsvíkurlínu 1 um klukkan sjö í morgun og varð því rafmagnslaust í skamma stund í Ólafsvík. Strax var keyrt á varaafli og er gert enn. Snælduvitlaust veður hefur verið á snæfellsnesi frá því í morgun og er enn. 

„Rétt fyrir hádegi fundu okkar starfsmenn stæðuna brotna. Það er ekki auðvelt að komast um á svæðinu,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets. Tveir staurar eru brotnir í stæðunni sem er ástæðan fyrir því að rafmagnið fór út. 

Efni til viðgerða er á leið vestur. Beðið er eftir að veðrið gangi niður og mögulega verður hægt að komast í viðgerðir í kvöld, að sögn Steinunnar en á meðan verður keyrt á varaafli. 

 Veðurvefur mbl.is

Starfsmenn Landsnets leita einnig að bilun á Mjólkárlínu 1, sem liggur á milli Geiradals og Mjólkár. Á meðan línan er ekki í rekstri eru allir notendur með rafmagn, þar sem varaalfsstöðvar og Mjólkárvirkjun sjá Vestfirðingum fyrir rafmagni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert