Segja borgarstjóra fegra mögur tilboð borgarinnar

Fé­lags­menn Efl­ing­ar stétt­ar­fé­lags vöktu at­hygli á virðing­ar­leysi sam­fé­lags­ins gagn­vart umönn­un­ar­störf­um …
Fé­lags­menn Efl­ing­ar stétt­ar­fé­lags vöktu at­hygli á virðing­ar­leysi sam­fé­lags­ins gagn­vart umönn­un­ar­störf­um og lág­um laun­um kvenna­stétta á Jafn­rétt­isþingi í Hörpu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Efling segir Dag B. Eggertsson borgarstjóra fara með villandi ummæli um þau tilboð sem Reykjavíkurborg hefur gert Eflingarfélögum, í sjónvarpsviðtali í Kastljósi í gær. Fram kemur í tilkynningu frá Eflingu að Reykjavíkurborg hefur ekki boðið Eflingarfélögum sérstaka leiðréttingu lægstu launa umfram taxtahækkanir að fyrirmynd lífskjarasamningsins svo neinu nemi.

„Þær upphæðir sem borgarstjóri fór með í viðtalinu í gær, með vísun í kjör ófaglærðs leikskólastarfsmanns, byggja á því að telja ekki núverandi sérgreiðslur í byrjunarupphæð en telja þær með í lokaupphæð.“ Efling segir framsetningu Dags í anda þeirra vinnubragða sem samninganefnd Reykjavíkurborgar hefur viðhaft, þar sem þegar umsamin réttindi eru sett í búning kjaraviðbóta. „Virðist þetta gert í þeim tilgangi að fegra mögur tilboð borgarinnar,“ segir í tilkynningu. 

Þar segir jafnframt að samninganefnd Eflingar myndi samþykkja, og hafi ítrekað boðið, að grunnlaun hækki sem samsvarar lífskjarasamningnum, að viðbættri leiðréttingu á bilinu 17-46 þúsund krónur. Sú leiðrétting þyrfti ekki að vera í formi grunnlaunahækkunar heldur gæti verið sérstakt álag sem ekki kæmi inn í grunn til útreiknings á yfirvinnu og vaktavinnu.

Ekki hefur verið boðað til fundar í kjaradeilunni, en upp úr slitnaði í viðræðum Eflingar og Reykjavíkurborgar í gær. Ótímabundið verkfall hátt í 2.000 félagsmanna Eflingar í borginni heldur því áfram. 

Trúnaðarmenn Eflingar komu saman á fundi í morgun og samþykktu eftirfarandi ályktun:

„Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson: þér hefur nú verið boðið að ræða kröfur okkar á fundum með félagsmönnum Eflingar ítrekað. Þú hefur ætíð hafnað þeim boðum. Þess í stað hefur þú aðeins látið sjá þig þegar þú færð að sitja einn í sjónvarpsviðtali, þar sem þú hefur talað niður okkar kjara- og réttlætisbaráttu. Þú kennir þig við stjórnmál samræðunnar. Við hörmum og fordæmum að þú viljir ekki eiga samtal við okkur, þitt eigið starfsfólk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert