Senda út SMS vegna COVID-19 á Akureyri

Lögreglan á Norðurlandi eystra vekur athygli á SMS-sendingunum á Facebook …
Lögreglan á Norðurlandi eystra vekur athygli á SMS-sendingunum á Facebook í dag, væntanlega svo fólki verði ekki bylt við á morgun, en búast má við því að margir íbúar á Akureyri fái sent upplýsingaskeyti. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra mun á morgun senda út SMS-skeyti úr númeri 112 sem ætluð eru farþegum sem koma með flugi frá útlöndum til Akureyrar, en skeytið mun innihalda nauðsynlegar upplýsingar varðandi viðbrögð við kórónuveirunni, COVID-19.

Lögreglan á Norðurlandi eystra vekur athygli á þessu á Facebook-síðu sinni í dag, væntanlega svo fólki verði ekki bylt við á morgun, en búast má við því að margir íbúar á Akureyri fái SMS-skeyti með þessum skilaboðum. Það er óhjákvæmilegt, segir lögregla.

„Reynt verður að þrengja svæðið, þ.e. að umhverfi flugvallarins eins og hægt er. Sendar sem verða virkjaðir til að senda þessi skilaboð eru á Akureyrarkirkju, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Halllandi, gengt Akureyri. Þetta eru bara upplýsingaskilaboð en sambærileg skilaboð eru send út í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar,“ segir í færslu lögreglunnar á Akureyri.

Lögregla segir enn fremur að gera megi ráð fyrir þessum SMS-sendingum þegar flugvélar sem koma erlendis frá lendi á Akureyri, á meðan óvissustig almannavarna vegna kórónuveirunnar er í gildi.mbl.is