Skólastjóri tekur upp tuskurnar

Í gær var nemendum og foreldrum þeirra tilkynnt um að skólastarf myndi falla niður í Réttarholtsskóla í dag. Ekkert hefur verið þrifið þar síðan á föstudag en allir starfsmenn sem sinna þrifum eru í verkfalli.

Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri, ætlar að þrífa hluta skólans svo starfið falli ekki alveg niður. „[Hér eru] 450 manns í einu húsi og það er fljótt að gerast að það fari að sjá á,“ segir hún um lokunina. Réttarholtskóli sé háðari félagsmönnum Eflingar en aðrir skólar og því hafi verkfallið farið að bíta fyrst þar.

Verið er að skipuleggja rafræna fjarkennslu fyrir áttunda og níunda bekk en reynt verður að halda uppi eins miklu starfi og hægt er fyrir tíunda bekk á meðan verkfallinu stendur. Til þess þarf að þrífa salerni og aðra aðstöðu í tveimur af álmum skólans „Ég er eini starfsmaður skólans sem má ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli og vegna nemendanna ætla ég að kjósa að gera það,“ segir Margrét. Mikilvægast sé að halda áfram undirbúningi þeirra sem ljúki grunnskólanámi sínu í vor. 

mbl.is kom við í Réttarholtsskóla í morgun og í myndskeiðinu er rætt við Margréti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert