Svona lítur aðgerðaáætlun BSRB út

Svona lítur dagatalið út frá 9. mars, þegar áætlað er …
Svona lítur dagatalið út frá 9. mars, þegar áætlað er að boðaðar aðgerðir BSRB-félaganna hefjist. Á myndinni er Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB. mbl.is

Aðildarfélög BSRB samþykktu með miklum meirihluta í atkvæðagreiðslu að grípa til verkfallsaðgerða sem eiga að hefjast 9. mars náist samningar ekki í kjaraviðræðum félaganna við viðsemjendur sína, sveitarfélögin og ríkið.

Alls munu um 15.400 manns leggja niður störf í aðgerðunum sem boðað hefur verið til, samkvæmt vef BSRB.

Sumir fara strax í ótímabundið verkfall sem áætlað er að hefjist 9. mars, það eru meðal annarra starfsmenn grunnskóla og frístundaheimila á höfuðborgarsvæðinu og víðar, auk félagsmanna sem starfa hjá Skattinum og sýslumannsembættunum.

Annar og töluvert fjölmennari hópur mun leggja niður störf á ákveðnum dögum í mars og apríl, eins og sjá má á meðfylgjandi skýringarmynd.

Starfsmenn aðildarfélaga BSRB sem starfa fyrir Garðabæ og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja munu þó ekki leggja niður störf, þar sem þar náðist ekki 50% þátttaka í atkvæðagreiðslu um boðaðar aðgerðir.

Ótímabundið verkfall allra 15. apríl

Þann 15. apríl, strax eftir páskafrí, er áætlað að allir þessir um 15.400 starfsmenn hins opinbera leggi alfarið niður störf, en BSRB hefur lýst því yfir að aðgerðir þeirra muni „lama“ stóran hluta almannaþjónustunnar í landinu.

Á myndinni hér að neðan, sem byggð er á upplýsingum frá BSRB, má sjá hvernig aðgerðaáætlunin lítur út með myndrænum hætti.

mbl.is