Verjast nýrri veiru í tómatarækt

Nýja tómataveiran getur drepið plönturnar, hvort sem þær eru ræktaðar …
Nýja tómataveiran getur drepið plönturnar, hvort sem þær eru ræktaðar úti eða inni í gróðurhúsum, og eyðilagt grænmetið. AFP

Matvælastofnun er að útbúa upplýsingar um nýjan vírus sem leggst á tómataplöntur, tómata og papriku og er að dreifa sér um Evrópu. Ætlunin er að koma upplýsingunum næstu daga til ræktenda ásamt leiðbeiningum um þrif á gróðurhúsum og tækjum og varnir gegn plágunni.

Fyrst var tilkynnt um tómataveiru þessa, ToBRFV, í gróðurhúsum í Ísrael árið 2014 en hún hefur nú breiðst út, til Evrópu, Ameríku og Kína. Í Evrópu hefur hún herjað á helstu framleiðendur tómata, svo sem á Spáni og Ítalíu. Hennar hefur einnig orðið vart á Bretlandi og í Frakklandi. Vírusinn er ekki skaðlegur fólki en drepur plöntur og vegna bletta sem koma á tómatana eru þeir óseljanlegir.

Hefur þetta valdið miklu tjóni hjá ræktendum. Í Frakklandi er verið að einangra stöðvar þar sem veiran hefur komið upp og tómötum og plöntun eytt vegna þess að ekki er til nein meðferð við sjúkdómnum. Franskir embættismenn vöruðu við því í gær að veiran myndi hafa miklar efnahagslegar afleiðingar ef hún breiddist út um landið.

Haustið 2017 greindust tveir plöntusjúkdómar í tómatarækt hérlendis og einn í gúrkurækt. Það voru aðrir sjúkdómar en nú eru að breiðast um Evrópu. Í kjölfarið birti atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið reglugerð um aðgerðir til varnar útbreiðslu plöntusjúkdóma og Matvælastofnun birti leiðbeiningar um smitvarnir í garðyrkju. Einnig voru tekin sýni í tómatarækt, gúrkurækt og kartöflurækt. Kom í ljós að veirurnar höfðu ekki borist í kartöflugarða, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert