Mörg verkefni verið nefnd sem skila litlum arði

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að þegar komi að mögulegri innspýtingu ríkisins í efnahagskerfið þurfi að velja verkefni af kostgæfni þannig að þau skili raunverulegum arði fyrir samfélagið. Þá segir hann útgjaldaaukningu síðustu ára hafa verið mikla og að passa þurfi upp á að steypa ekki ríkissjóði í tuga eða hundruð milljarða rekstrarhalla.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði Bjarna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi um stöðuna í ljósi þeirra óveðursskýja sem hafi hrannast upp í efnahagslífinu. Vísaði hann til hugmynda Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra í viðtali í Morgunblaðinu í morgun, en þar mælti Lilja með 50 milljarða innviðainnspýtingu. Spurði Þorsteinn um afstöðu Bjarna til þessara hugmynda.

Efla innviði án þess að taka það allt að láni

Bjarni sagði að nú væru kjöraðstæður til að auka við opinberar fjárfestingar. Þannig mætti til dæmis ráðast í innviðafjárfestingar í tengslum við sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka, líkt og hann nefndi í viðtali í síðustu viku.

Sagði Bjarni að salan þyrfti ekki að raungerast á þessu ári, heldur á næstu árum. „En aðalmálið er að menn leggi af stað og taki ákvörðun um að umbreyta eigninni þegar réttu aðstæðurnar skapast og þannig efla innviði í landinu án þess að taka það allt að láni meðan eignir eru til staðar.“

Passa að steypa ríkissjóði ekki í tuga milljarða halla

Þá sagði Bjarni að huga þyrfti vel að almennum rekstri ríkisins fyrir utan innviðafjárfestingar. Sagði hann ekki hægt að horfa upp á að á næstu árum yrði ríkissjóður að öðru leyti rekinn með halla, gjalda- og tekjuliðir þyrftu að ná saman fyrir utan fullfjármagnaðar innviðafjárfestingar.

Eftir útgjaldaaukningu ríkisins undanfarin ár sagði Bjarni rétt að hafa áhyggjur. Tekjur ríkisins væru einnig að gefa eftir og að ríkið myndi ekki rísa undir viðlíka útgjaldavexti áfram að óbreyttum tekjuforsendum. „Við þurfum að koma með trúverðuga áætlun, þannig að til viðbótar við fjárfestingaátakið séum við ekki að steypa ríkissjóði í tuga eða hundruð milljarða rekstrarhalla.“

Mörg verkefni „skila afskaplega litlum arði fyrir samfélagið

Bjarni nefndi svo að ekki væri nóg að ætla í fjárfestingu. Það þyrfti að velja verkefnin af kostgæfni þannig að þau myndu skila raunverulegum arði fyrir samfélagið.

„Margt sem ég hef heyrt nefnt í umræðunni mun skila afskaplega litlum arði fyrir samfélagið til lengri tíma jafnvel þótt það auki umsvifin tímabundið og fleiri verði ráðnir til vinnu. Þarna eigum við mikið verk að vinna, dýpka umræðuna um arðbærar innviðafjárfestingar á móti hugmyndum um allskonar fjárfestingar sem gera ekkert nema að fjölga störfum í landinu tímabundið.“

Þorsteinn spurði Bjarna svo aftur út í fjármögnunina. Sagðist Þorsteinn sammála að selja ætti hlut í Íslandsbanka, en efaðist að sú upphæð kæmi í ríkiskassann nægjanlega snemma til að fjármagna framkvæmdir sem megi ekki bíða með, til dæmis vegaframkvæmdir.

Bjarni sagði rétt að í þessu fælist áskorun og að ekki væri hægt að boða átaka í fjárfestingum sem væri háð því að selja eignir á tilteknum tíma. Hins vegar væri hægt að koma söluferli af stað og þá væri hægt að brúa bilið í millitíðinni ef gera mætti ráð fyrir tekjum inn af eignasölunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert