Virðist þokast í sáttaátt hjá SGS og ríkinu

Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri SGS.
Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri SGS. mbl.is/​Hari

Viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins (SGS) og samninganefnd ríkisins hafa náð samkomulagi um útlínur á nýjum kjarasamningi átján stéttarfélaga innan SGS sem vísuðu kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara í gær. Enn er þó unnið að því að ljúka útfærslu á vaktavinnuþáttum samningsins.

Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri SGS segir við mbl.is að tillögur vaktavinnuhópsins séu „órjúfanlegur þáttur“ samningsins, en þær og margt annað hafa verið til umræðu frá því að deilu SGS við ríkið var vísað til ríkissáttasemjara 23. janúar.

„Þegar þær liggja fyrir erum við með heildarsamning og þá munum við kalla samninganefnd SGS sem eru 18 formenn stéttarfélaga saman, fara yfir þetta og taka afstöðu til hans,“ segir Flosi. Þá mun samninganefnd SGS ýmis samþykkja samninginn eða fella og fari svo að hann verði samþykktur verður hann borinn undir félagsmenn í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Í fréttatilkynningu SGS var tekið fram að ekki yrðu gefnar neinar upplýsingar einstök atriði samkomulagsins. Blaðamaður ákvað þrátt fyrir það að spyrja hvort launaliður samninganna væri eftir línum lífskjarasamningsins sem samþykktur var á almennum vinnumarkaði síðasta vor.

„Ég ætla bara ekki að segja neitt um innihaldið á þessu stigi. Það er fjallað um krónur og aura í honum, það er innihaldið,“ svaraði Flosi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert