Bann við áfengisauglýsingum verði einnig afnumið

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

Félag atvinnurekenda leggur til mun víðtækari endurskoðun á lagaumgerð áfengismarkaðar hér á landi en gert er ráð fyrir í frumvarpsdrögum dómsmálaráðherra.

Í drögunum er lagt til að innlend einkafyrirtæki fái heimild til að reka vefverslun með áfengi.

„FA lýsir yfir stuðningi við það markmið ráðherra að tryggja jafnræði milli innlendrar og erlendrar verslunar, en telur að ganga þurfi mun lengra í frjálsræðisátt til að tryggja að breytingin búi ekki til nýtt ójafnræði eða samkeppnishindranir. Þannig leggur félagið til heildarendurskoðun á rekstrarumhverfi áfengisframleiðslu og -verslunar á Íslandi, þ.m.t. sölufyrirkomulagi, reglum um auglýsingar og markaðssetningu, fjárhæð áfengisgjalda og innheimtu þeirra,“ segir á vefsíðu félagsins.

FA vill afnema bann við auglýsingum á áfengi samhliða því að vefverslun er heimiluð og gefur það upp þrjár ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi  til að rétta hlut innlendra áfengisframleiðenda, í öðru lagi til að draga úr aðstöðumun smásölu og heildsölu, verði netverslun heimiluð og í þriðja lagi skjóti það skökku við að heimila innlendum fyrirtækjum að starfrækja netverslun með áfengi en banna þeim að segja neytendum frá því með auglýsingum að verslunin sé til staðar og hvert vöruframboð hennar sé.

„Áform ráðherra eru góð, en í ráðuneytinu virðast áhrif breytingarinnar eða útfærsla ekki hafa verið hugsuð til enda,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert