Fær ekki að snúa aftur á Kvíabryggju

Árásarmaður sem stakk samfanga sinn með eggvopni í gær fær …
Árásarmaður sem stakk samfanga sinn með eggvopni í gær fær ekki að snúa aftur á Kvíabryggju. mbl.is/Gunnar Kristjánsson

Fangi sem ráðist var á með eggvopni í fangelsinu á Kvíabryggju skarst á fæti og eru sár hans ekki talin alvarleg. Lögreglan á Vesturlandi er með árásina til rannsóknar. Fanginn var fluttur aftur á Kvíabryggju eftir að hann fékk aðhlynningu á heilbrigðisstofnun og árásarmaðurinn var fluttur í lokað fangelsi.

„Hann var stunginn með eggvopni, hvort það var hnífur eða hvað, það er verið að rannsaka,“ segir Ásmundur Kr. Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, í samtali við mbl.is, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um rannsókn málsins, sem hann segir þó miða vel. 

Hefur áhrif á allan framgang afplánunar

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir í samtali við mbl.is að árásarmaðurinn fái ekki að snúa aftur á Kvíabryggju. „Þegar svona mál koma upp hafa þau verulegar afleiðingar vegna þess að viðkomandi er fluttur aftur í lokað fangelsi. Slæm hegðun í afplánun getur haft áhrif á reynslulausn, áhrif á heimild til vistunar utan fangelsa og áhrif á allan framgang afplánunar.“

Páll segir fastar verklagsreglur gilda þegar árásir líkt og sú í gær eiga sér stað. Sálfræðingur og mannauðsstjóri Fangelsismálastofnunarinnar fóru á Kvíabryggju í morgun til að hlúa að vistmönnum og starfsmönnum. Þá mun stofnunin fara yfir upptökur úr myndavélum og taka skýrslu af fangavörðum vegna árásarinnar. 

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir árásir sjaldgæfar í opnum fangelsum landsins …
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir árásir sjaldgæfar í opnum fangelsum landsins en að þær hafi mikil áhrif á allan framgang afplánunar þess sem á hlut. mbl.is/​Hari

Vímuefni oft ástæða fyrir ofbeldisbrotum í fangelsum

Kvíabryggja er annað af tveimur opnum fangelsum landsins og segir Páll árásir sjaldgæfar í þeim. „Þar erum við með fanga sem almennt er treystandi til að vista við svona aðstæður.“ Hann telur engu að síður ástæðu til að fara yfir öryggismál og stöðuna almennt í fangelsum landsins, opnum jafnt sem lokuðum. 

„Það sem að ég tel að hafi mest áhrif er að draga úr notkun vímuefna í fangelsum landsins, eins og reyndar annars staðar á landinu. Vímuefni eru oft ástæðan fyrir ofbeldisbrotum og það er bein tenging milli fíkniefnanotkunar í fangelsum og ofbeldis. Okkar vinna fer ekki síst í það að draga úr notkun slíkra efna,“ segir Páll, sem getur þó ekki sagt til um hvort vímuefnanotkun tengist árásinni í gær með nokkrum hætti. 

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu - félags fanga á Íslandi.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu - félags fanga á Íslandi. mbl.is/Hari

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu — félags fanga, segir að fangar á Kvíabryggju, sem og fangaverðir, hafi orðið skelkaðir við árásina. Hann ræddi árásina við Pál í morgun. 

„Bæði fangar og fangaverðir verða vissulega skelkaðir. En hins vegar er þetta fangelsi og það má alltaf gera ráð fyrir því að svona lagað gerist á svona stað,“ segir Guðmundur. Hann tekur undir orð Páls um að sporna þurfi gegn vímuefnanotkun í fangelsum landsins. „Núna fer fram vinna til að sporna gegn fíkniefnaneyslu í fangelsunum, það er verkefni sem tekur tíma, en það er ljóst að það þarf að breyta fangelsiskerfinu á einhvern hátt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert