Fjögur ung börn bíða brottvísunar

Sema Erla Serdar greinir frá máli fjölskyldunnar á Facebook og …
Sema Erla Serdar greinir frá máli fjölskyldunnar á Facebook og lætur fylgja mynd af börnunum fjórum og biður fólk að leggja andlit þeirra á minnið og veita þeim stuðning. Af Facebook-síðu Semu

Systkinin Ali, Kayan, Saja og Jadin bíða þess nú að vera brottvísað til Grikklands. Þau eru öll undir níu ára aldri, eða níu ára, fimm ára, fjögurra ára og eins árs.

Foreldrar barnanna eru fædd árið 1993 og 1995 og hafa verið á flótta frá árinu 2017 þegar þau flúðu pólitískar ofsóknir, ofbeldi, pyntingar og aðrar hörmungar í heimalandinu Írak.

Sema Erla Serdar greinir frá máli fjölskyldunnar á Facebook og lætur fylgja mynd af börnunum fjórum og biður fólk að leggja andlit þeirra á minnið og veita þeim stuðning. „Systkinin eru flóttabörn sem komu til Íslands í leit að skjóli, vernd og framtíð en íslensk yfirvöld hafa neitað börnunum um að vera á Íslandi og ætla að senda þau úr landi og til Grikklands.“

Móðirin handleggsbrotin í árás grísks öfgahóps

Sema segir að tími þeirra á Grikklandi hafi verið fjölskyldunni mjög erfiður, en þar neyddust þau til að sækja um vernd þrátt fyrir að það hafi ekki staðið til. 

Þau bjuggu við óásættanlegar aðstæður og áttu varla fyrir mat, fatnaði eða öðrum nauðsynjum. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu var af skornum skammti, lítið sem ekkert húsnæði var að fá, skólaganga var takmörkuð og enga atvinnu var að fá á Grikklandi. Þar að auki upplifði fjölskyldan mikið óöryggi, hræðslu og vanlíðan þegar þau voru á Grikklandi, meðal annars vegna mikilla kynþáttafordóma, ofbeldis og ítrekaðra árása af höndum grískra öfgahópa á fjölskylduna, en í einni þeirra var móðir barnanna handleggsbrotin,“ skrifar Sema.

Fjölskyldufaðirinn vill ekki tala um hvað bíður þeirra þegar þau verða send frá Íslandi, en hann vill bara tryggja börnum sínum öryggi, vernd og framtíð.

Sema skrifar að ítrekað hafi verið sýnt fram á skelfilegar aðstæður flóttafólks á Grikklandi en að það virðist engu breyta fyrir íslensk stjórnvöld sem séu enn að senda flóttabörn til Grikklands.

Hvenær er komið nóg? Hvers eiga Ali, Kayan, Saja og Jadin að gjalda? Hvenær hættir grimmdin? Hvenær kemur mannúðin? Samkenndin? Skilningurinn? Hvenær ætla stjórnvöld að gera eitthvað í þessum málum? Hvenær…

Efnt hefur verið til undirskriftasöfnunar vegna máls fjölskyldunnar.

 

 

mbl.is