Gróf árás hóps á 14 ára dreng

Lögreglan í Kópavogi rannsakar málið.
Lögreglan í Kópavogi rannsakar málið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn lögreglunnar í Kópavogi á árás ungmennahóps á 14 ára dreng við biðstöð Strætó í Hamraborg í Kópavogi er unnin með aðkomu barnaverndaryfirvalda. Hópurinn sparkaði í hann og lamdi. Árásin átti sér stað um kvöldmatarleytið mánudaginn 10. febrúar og var tekin upp á myndband og deilt á samfélagsmiðlun. 

Þegar lögreglan kom á vettvang voru árásarmennirnir á bak og burt, en hún hitti fyrir þann sem fyrir árásinni varð og var viðkomandi fluttur á slysadeild til aðhlynningar, en um grófa árás var að ræða. Við rannsókn málsins er m.a. stuðst við myndefni af árásinni, en lögreglan telur sig hafa nokkuð skýra mynd af atburðarásinni.

Málið er í rannsókn og ekki liggur fyrir hvenær henni lýkur, að sögn Heimis Ríkharðssonar lögreglumanns. 

Þeir sem urðu vitni að árásinni, eða búa yfir vitneskju henni tengdri, eru beðnir um að hafa samband við lögreglu, en upplýsingum má koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í tölvupósti á netfangið heimir@lrh.is

Ráðist var á sama dreng í Grafar­vogi í fyrra af hópi ung­menna og voru ein­hverj­ir þeirra vopnaðir hnúa­járn­um.

Að sögn föður drengs­ins er hann að jafna sig. Hann glím­ir við höfuðverk og upp­köst. Faðir­inn tel­ur mögu­legt að út­lend­inga­andúð liggi að baki árás­inni en son­ur hans er af er­lend­um upp­runa. Hann bæt­ir við að árás­ar­menn­irn­ir séu 15 til 17 ára.

Eftir að tilkynning barst frá lögreglunni var fréttin uppfærð klukkan 10:30 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert