Mikill eldsvoði í Kópavogi

mbl.is/Eggert

Mikill eldur geisar í iðnaðarhúsnæði við Vesturvör 36 í Kópavogi. Þar er sælgætisgerðin Freyja með lager og skrifstofu auk þess sem vélsmiðjan Hamar er í húsinu. Að sögn varðstjóra í slökkviliðinu hefur mikill eldur geisað í húsnæðinu frá því á fjórða tímanum í nótt.

Allt tiltækt lið slökkviliðsins er að störfum og hefur ekki enn tekist að ná tökum á eldinum. Húsnæðið er um þrjú þúsund fermetrar að stærð. Ekkert er vitað um eldsupptök á þessari stundu.

Uppfært klukkan 6:40

Að sögn Eyþórs Leifssonar, varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, hefur slökkviliðsmönnum tekist að slökkva eldinn að mestu og er unnið að því að slökkva í glæðum. Hann á von á því að slökkviliðið verði að fram eftir degi við að hreinsa upp vatn og reykræsta. 

Hann segir ljóst að tjónið er mjög mikið en svo virðist sem eldurinn hafi komið upp í þeim hluta hússins þar sem vélsmiðjan er. Mikið tjón er af völdum reyks og elds og óvíst hvort eitthvað af lager Freyju hafi sloppið.

Töluvert er af gasi í húsinu en svo virðist sem tekist hafi að forða því öllu undan eldinum því ekkert hefur verið tilkynnt um gassprengingar í húsinu. 

Lögreglan mun taka við vettvanginum fljótlega að sögn Eyþórs og eins tryggingafélög þeirra fyrirtækja sem eru með starfsemi að Vesturvör 36.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert