Þarf að greiða þrotabúi Pressunnar 80 milljónir

Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamaður þarf að greiða þrotabúi Pressunnar 80 …
Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamaður þarf að greiða þrotabúi Pressunnar 80 milljónir króna, samkvæmt dómi Héraðsdóms Vesturlands. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Vesturlands hefur gert Birni Inga Hrafnssyni fjölmiðlamanni að greiða þrotabúi Pressunnar ehf. 80 milljónir króna auk vaxta, en dómurinn féllst á kröfu þrotabúsins um riftingu veðsetninga Pressunnar ehf. á eignum félagsins með lánasamningi sem gerður var á milli Pressunnar og Björns Inga, sem þá var stjórnarformaður Pressunnar, í júní árið 2017.

Frjáls fjölmiðlun ehf., sem tók yfir miðla Pressunnar skömmu áður en félagið fór í gjaldþrot, tók einnig yfir skuld Pressunnar við Björn Inga á grundvelli þessa lánasamnings, en þessari yfirtöku skuldanna hefur einnig verið rift og því þarf Björn Ingi að greiða þrotabúinu 80 milljónir króna.

Lögmenn þrotabúsins færðu rök fyrir því fyrir dómi að ekkert í bókhaldi Pressunnar benti til þess að Björn Ingi hefði nokkru sinni lánað Pressunni þessar 80 milljónir króna, eins og hann segist hafa gert í nokkrum greiðslum. 

Þrotabúið sakaði Björn Inga um að hafa gengið frá veðsetningunni til að tryggja hagsmuni sína á kostnað annarra kröfuhafa áður en Pressan færi í þrot, en með þessari veðsetningu öðlaðist Björn Ingi allsherjarveð í Pressunni og fjölmiðlum útgáfufélagsins, Eyjunni, Bleikt, 433 og Pressunni. 

Ekkert bendir til þess að lánið hafi verið veitt

Dómari í málinu segir í niðurstöðu sinni að í bókhaldi þrotabúsins séu þess ekki merki að Björn Ingi hafi lánað þessar 80 milljónir til Pressunnar. Raunar segir dómarinn að í lok yfirlitsins hafi Björn Ingi skuldað Pressunni rúmar 12 milljónir, en greiðslur gengu á milli Björns Inga og útgáfufélagsins á víxl. 

„Það eru því aðeins staðhæfingar stefnda sjálfs sem styðja að umrædd skuld hafi í raun verið fyrir hendi, auk þess sem vitnin Arnar Ægisson, fyrrum framkvæmdastjóri stefnanda og Sigurvin Ólafsson, sem kom að rekstri dótturfélagsins DV ehf., báru að greiðslur hefðu borist frá stefnda á árinu 2017 til að unnt væri að halda rekstri félaganna áfram,” segir dómarinn og bætir við að skort hafi upp á að Björn Ingi styddi málatilbúnað sinn gögnum. 

Dómarinn segir að sýnt hafi verið fram á að um hafi verið að ræða „örlætisgerning“ í skilningi laganna og að Björn Ingi hafi ekki sýnt á það frammi fyrir dómi að „gjafatilgangur hafi ekki búið að baki þessari ráðstöfun“.

Dómurinn var kveðinn upp 19. febrúar en birtist í dag á vef dómstólsins.

mbl.is