Þriðji drengurinn á leið í endurhæfingu

Frá aðgerðum lögreglu og slökkviliðs við Óseyrarhöfn 17. janúar.
Frá aðgerðum lögreglu og slökkviliðs við Óseyrarhöfn 17. janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn þriggja drengja sem voru í bifreið sem hafnaði í Hafnarfjarðarhöfn í janúar útskrifast af Barnaspítala Hringsins á mánudag fer þaðan í endurhæfingu á Grensásdeild. Hinir drengirnir höfðu þegar verið útskrifaðir.

Þrír unglingsdrengir voru um borð í bifreiðinni sem fór fram af Óseyrarbryggju í Hafnarfirði 17. janúar síðastliðinn. Einum drengjanna tókst að komast upp úr höfninni af sjálfsdáðum en kafarar náðu hinum drengjunum tveimur úr bílnum. Sá fyrstnefndi var útskrifaður af sjúkrahúsi daginn eftir atvikið en hinir tveir lentu á gjörgæslu og fóru þaðan á Barnaspítala Hringsins.

Góðir hlutir gerast hægt

Annar þeirra var svo útskrifaður fyrir tveimur vikum, en sá þriðji verður eins og áður segir útskrifaður á mánudag og er á leið í áframhaldandi endurhæfingu á Grensásdeild. Þetta staðfestir Rósa Kristjánsdóttir, deildarstjóri sálgæslu djákna og presta á Landspítalanum, í samtali við mbl.is, en fyrst var greint frá á Vísi.

Að sögn Rósu hefur drengurinn verið í endurhæfingu á Barnaspítalanum og verður henni haldið áfram á Grensásdeild. „Góðir hlutir gerast hægt,“ segir Rósa og að það séu frábærar fréttir að drengurinn sé á leið á Grensás.

mbl.is