Þurfum að skipta okkur oftar af

Stuðningur foreldra við skólakerfið skiptir máli.
Stuðningur foreldra við skólakerfið skiptir máli. mbl.is/Hari

„Mér finnst sorglegt að svona skuli gerast í okkar samfélagi. Ég sendi kærleiks- og batakveðjur,“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands, um grófa árás hóps unglinga á 14 ára dreng við biðstöð Strætó í Hamra­borg í Kópa­vogi í síðustu viku.

Hún hvetur foreldra til að ræða við börnin sín og biðja þau um að setja sig í spor drengsins og einnig foreldrana að setja sig í spor foreldra barnsins. Hún tekur fram að langflestir unglingar og börn séu frábær og flott og myndu ekki gera svona. Vanda hefur allan sinn starfsferil starfað með börnum og fullorðnum að eineltis- og samskiptamálum á öllum stigum skólakerfisins og í íþrótta- og tómstundastarfi.

Vitni voru að árás hópsins en enginn skarst í leikinn til að stöðva ofbeldið sem drengurinn var beittur. Vanda segir að slíkt viðbragðsleysi samborgaranna sé því miður ekki nýtt af nálinni og þessi þáttur í mannlegri hegðun; að hjálpa ekki samborgurum sínum í neyð hafi talsvert verið rannsakað innan félagssálfræðinnar. Eftir því sem fleiri verða vitni að einhvers konar árás eða misbeitingu eru minni líkur á að við gerum eitthvað til að aðstoða. „Fólk hugsar þá gjarnan að það sé einhver annar sem grípi inn í eða ef enginn gerir neitt, þá geri ég ekki neitt heldur,“ útskýrir Vanda.   

Vanda Sigurgeirsdóttir er lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið …
Vanda Sigurgeirsdóttir er lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands. mbl.is/Golli

Út frá eineltisfræðunum þá er það að skipta sér af öðrum brot á félagslegum reglum því þú vilt ekki vera sá sem kjaftar frá. „Í eineltismálum þá grípa áhorfendur allt of sjaldan inn í og því þurfum við að breyta,“ segir Vanda. Ótti vegur einnig þungt og stýrir gjörðum fólks. Það óttast um hvað gæti hent það sjálft ef það gripi inn í krefjandi og eða ofbeldisfullar aðstæður. „Þegar svona mikið ofbeldi á sér stað skilur maður þessa hugsun en það er lágmark að hringja í lögregluna. Einnig hefði verið góð lausn að tveir eða fleiri hefðu tekið sig saman og gripið inn í,“ segir Vanda um árásina á drenginn.

Ráðist var á sama dreng við Spöngina í Graf­ar­vogi í fyrra af hópi ung­menna og voru ein­hverj­ir þeirra vopnaðir hnúa­járn­um. Þegar þetta átti sér stöðvaði maður ofbeldið en hann var ekki sá fyrsti sem varð vitni að þessu. Maðurinn ók fram hjá þar sem hópurinn veittist að drengnum, stöðvar bílinn og hleypur út honum til aðstoðar þegar þetta átti sér stað.  

Þurfum að vera með bein í nefinu

„Við þurfum sem samfélag að skipta okkur oftar af. Að sjálfsögðu í svona stórum málum en líka í smærri málum,“ segir Vanda. Hún nefnir sem dæmi að ef fullorðinn einstaklingur gengur fram hjá börnum vera vond við önnur börn þá eiga fullorðnir að skipta sér af því. „Ef maður skiptir sér ekki af þá sendum við þessi skilaboð að þetta sé í lagi; haltu bara áfram, þetta er allt í lagi. Þolandinn fær þau skilaboð að öllum sé sama um sig. Það eru skelfileg skilaboð,“ segir Vanda.

Hún tekur fram að þetta sé eitt af því sem við sem samfélag þurfum að hugsa um. „Mig langar ekki að búa í samfélagi þar sem hver hugsar bara um sjálfan sig og við skiptum okkur ekki af öðrum,“ segir hún og bætir við: „Ef útlendingahatur er orðið partur af þessu þá er það orðið miklu mikilvægara að uppræta þetta. Það er svo mikilvægt að hætta þessu hiki sem er innra með okkur þegar kemur að því að skipta okkur af og fá þetta bein í nefið sem maður þarf í stórum og litlum málum,“ segir hún.

„Í eineltismálum þá grípa áhorfendur allt of sjaldan inn í,“ …
„Í eineltismálum þá grípa áhorfendur allt of sjaldan inn í,“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands. mbl.is/Golli

Alltaf einhver aðdragandi

Árásin vekur spurningar um hvernig samfélagi við viljum búa í, hvernig menningin okkar er og hverju við viljum breyta, segir Vanda. „Við sem foreldrar þurfum að hjálpa kennurum og öðru fagfólki meira. Ramminn sem við setjum börnunum okkar þarf að vera skýrari, við þurfum að nota jákvæðan aga, að afleiðingar séu eðlilegar og í samræmi við óæskilega hegðun,“ segir hún.

Aðdragandinn að því að unglingarnir ákváðu að ráðast á piltinn er einhver. „Það er vanlíðan sem býr þarna að baki og þröskuldar sem þessir einstaklingar fara yfir. Þeir þurfa aðstoð og hjálp,“ segir Vanda. Viðvörunarljósin hafa verið farin að blikka hjá þessum einstaklingum og eitthvað hefur gerst á undan. „Ég tel að við sem samfélag eigum að og getum afstýrt þessu og stigið mun fyrr inn í,“ segir hún. Öflugt tómstundastarf, t.d. í félagsmiðstöðvum, þar sem lögð er áhersla á starf með hópum í vanda, getur skilað miklum árangri. Oft og tíðum hafa tengsl skólans við þessa einstaklinga trosnað og þá skiptir miklu máli að til sé starfsemi sem leiðir þá af rangri braut. 

Þess vegna vill Vanda byrja með forvarnir fyrr. Sýnt hefur verið fram á að forvarnir hjálpa leik- og grunnskólakennurum, sem og starfsfólki í íþrótta- og tómstundastarfi. Máli sínu til stuðnings bendir hún á landskönn­un á geðrækt, for­vörn­um og stuðningi við börn og ung­menni í skóla­starfi á Íslandi sem sýnir að kennsla í félags- og tilfinningafærni er ábótavant í skólakerfinu. Sú kennsla kemur best út á fyrstu stigum skólakerfisins, í leikskólunum, en minnkar markvisst upp allt skólakerfið og fram í framhaldsskóla. 

Forvarnir eru mikilvægar, að mati Vöndu.
Forvarnir eru mikilvægar, að mati Vöndu. mbl.is/Eggert

Í skólakerfin þarf bæði meiri stuðning foreldra og einnig sérfræðinga til að styðja betur við kennarana í starfi, að mati Vöndu. Hún segir kennara í mörgum bekkjum stöðugt að slökkva elda. Álagið sé mikið og það sé ekki að ástæðulausu að kulnun meðal leik- og grunnskólakennara sé vaxandi.

„Við foreldrar verðum að benda fyrst á okkur sjálf. Hvað ætla ég að gera? Við getum ekki alltaf skellt skuldinni á skólakerfið og spurt hvað ætlar skólinn að gera í þessu?“ segir Vanda.

Hvað geta foreldrar gert til að styðja betur við skólanna?

„Spurðu barnið þitt um skóladaginn; hvað var að gerast? Kom eitthvað upp á? Voru allir góðir? Þú getur stutt við kennarann með því að kynnast foreldrum hinna barnanna. Taka þátt í starfinu og skapað gott foreldrasamfélag. Og hreinlega alið upp barnið þitt. Við þurfum að gefa okkur þann tíma sem þarf í það. Tekið á málum og sett börnum okkar ramma,“ segir Vanda.  Hún bætir við að sérlega mikilvægt sé að foreldrar fari ekki í vörn gagnvart neikvæðri hegðun barna sinna, heldur vinni með kennurum og öðru fagfólki að breyttri hegðun barnsins. Þá eigum við að hvetja börnin okkar að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi, því rannsóknir sýna að forvarnargildi þess starfs er mjög mikil.

Spurð hvort foreldrar séu of ragir við að taka á erfiðum málum svarar hún því til að í sumum tilvikum er ábyrgð varpað yfir á skólann. Hún tekur fram að skólinn beri auðvitað mikla ábyrgð en hann getur þetta ekki einn. Heldur sé þetta mál okkar allra.

Eigum ekki að þurfa að lenda þarna

„Ég er sannfærð um að með samstilltri vinnu eigum við ekki að þurfa að lenda þarna,“ segir hún. Hún talar af reynslu því hún vinnur mikið með starfsfólki leik- og grunnskóla og veitir þeim verkfæri til að takast á við eineltismál og leiðir til að bæta samskipti.

„Þegar við erum 360 þúsund manna þjóð eigum við að geta skapað menningu í samfélaginu þar sem við erum góð hvert við annað og gerum ekki svona hluti,“ segir hún.

Hún ítrekar að fullorðna fólkið þurfi að ganga á undan með góðu fordæmi í samskiptum og ummælum á netinu. Hún bendir á að rannsóknir á einelti á vinnustöðum mælist svipað hátt og í grunnskólum. „Við hin fullorðnu þurfum því að taka ábyrgð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert