Allir í fjallið

Flestir ættu að geta fundið brekku við sitt hæfi.
Flestir ættu að geta fundið brekku við sitt hæfi. mbl.is

Skíðamenn víða um land ættu flestir að geta lagt stund á sitt eftirlætisáhugamál nú um helgina en búist er við fínu veðri og flottu færi um landið.

Í Bláfjöllum verða flestar lyftur opnar milli klukkan 10 og 17 í dag en þar er spáð hæglætisveðri og frosti á milli -7 og -2 yfir helgina. 

Í Skálafelli verður sömuleiðis opið í dag en þar var öllu hvassara en í Bláfjöllum í morgun. Benti spá þó til þess að á því ætti að hægjast.

Í Hlíðarfjalli á Akureyri verður helgin að líkum lífleg en sem dæmi heimsækja fjallið þrír hópar frá höfuðborginni, frá háskóla, grunnskóla og félagsmiðstöð, að sögn starfsmanna fyrir norðan. Í dag er spáð norðaustan 7-10 m/s, takmörkuðu skyggni og dálítilli snjókomu. Frost 5 til 6 stig.

Skíðasvæðið í Stafdal verður opið milli 11 og 16 í dag, þar er nú um fimm stiga frost og alskýjað. Þá verður opið milli klukkan 10 og 16 í Oddsskarði, hvar er spáð 5 stiga frosti og N 4-5 m/s. Opið verður milli 11 og 16 á Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar í Tungudal. Þá er stefnt að því að opna skíðasvæðið Tindastóli klukkan 12 í dag.

Frá sólríkum degi í Tungudal í Skutulsfirði.
Frá sólríkum degi í Tungudal í Skutulsfirði. mbl.is/Sigurjón
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert