Ávöxtunin í tveggja stafa tölum

Lífeyrissjóður verslunarmanna er næststærsti sjóður landsins.
Lífeyrissjóður verslunarmanna er næststærsti sjóður landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérstaklega góð ávöxtun var af eignum lífeyrissjóða landsins á síðasta ári. Þannig nam ávöxtun eigna Lífeyrissjóðs verslunarmanna 18,7% sem svarar til 15,6% hreinnar raunávöxtunar.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag telur formaður Landssamtaka lífeyrissjóða að ávöxtun hafi verið góð hjá flestum sjóðanna og þeir hafi almennt náð tveggja stafa tölu í ávöxtun.

„Góður árangur á síðasta ári hefur mikla þýðingu fyrir lífeyrissjóðina og sjóðsfélaga. Tryggingafræðileg staða þeirra hækkar. Lífeyrissjóðakerfið í heild er gott og skilar miklu og þjóðin nýtur ávaxtanna af því,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða. Hún tekur fram að lífeyrissjóðirnir séu að fjárfesta til langs tíma en að því komi að sjóðsfélagar njóti þess.

Ekki mörg svona ár

Guðrún segir um ávöxtunina á síðasta ári að vegna breytinga undir lok ársins 2018 hafi lífeyrissjóðirnir misst niður ávöxtun. Hins vegar hafi gengið vel að ná henni til baka á árinu 2019 og gott betur en það.

Vextir hafa verið lágir í Evrópu og lækkað hér á landi. Guðrún segir að Lífeyrissjóður verslunarmanna sé með stórt erlent eignasafn sem hafi verið að stækka og þar hafi fengist góð ávöxtun. Hún á von á að það verði krefjandi verkefni að ná hárri ávöxtun í ár. „Mér er til efs að við fáum mörg svona góð ár,“ segir hún.

Þegar tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða nær 10% markinu ber þeim að auka réttindi sjóðsfélaga. Lífeyrissjóður verslunarmanna er með 8,6% stöðu og telur Guðrún að staða hans sé sterkust. Ekki eru því líkur á aukningu réttinda í ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert