Stungu af frá ógreiddum reikningi á veitingastað

mbl.is/Kristinn Magnússon

Afskipti voru höfð af pari sem hafði farið frá ógreiddum reikningi á veitingahúsi í hverfi 108 í Reykjavík um tíuleytið í gærkvöldi.

Parið hafði snætt mat og drukkið áfengi og fór síðan út til að reykja. Þegar þau ætluðu að stinga af elti starfsfólk veitingahússins parið þangað til lögreglan kom.

Um hálfellefuleytið í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað á tölvu frá veitingahúsi við Laugaveg. Myndir náðust af geranda og var hann handtekinn af lögreglunni, samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Tilkynnt var um umferðaróhapp í hverfi 108 í Reykjavík laust fyrir klukkan eitt í nótt. Ekið hafði verið á bifreið og fór ökumaðurinn af vettvangi. Hann var handtekinn skömmu síðar grunaður um ölvun við akstur.

Um tvöleytið var tilkynnt  um innbrot í Hlíðahverfinu (hverfi 105). Farið var inn og verðmætum stolið á meðan húsráðendur voru ekki heima.

Barði bíla 

Upp úr klukkan fjögur í nótt voru afskipti höfð af konu í miðbæ Reykjavíkur. Hún var í annarlegu ástandi við veitingahús í miðborginni, barði í bíla og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Hún var vistuð í fangageymslu lögreglunnar.

Töluvert var einnig um akstur ökumanna í nótt eða gærkvöldi, sem grunaðir voru um að vera undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Einn var stöðvaður í Kópavogi um tvöleytið. Ökumaðurinn er aðeins 17 ára og var málið afgreitt með aðkomu foreldra og tilkynningu til barnaverndar.

mbl.is