Vilja ekki „byggingar alveg út í eyju“

Halldór Páll Gíslason á blaðamannafundi í síðasta mánuði.
Halldór Páll Gíslason á blaðamannafundi í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Búið er að skera niður dalinn og það er ekkert langt í það að þegar þú stendur á Höfðabakkabrúnni þá verður búið að byggja allt nema eyjuna. Það er það sem við viljum ekki sjá. Við viljum að þetta útivistarsvæði fái að njóta sín og að þú horfir ekki á byggingar alveg út í eyju.“

Þetta segir Halldór Páll Gíslason, formaður Hollvinasamtaka Elliðaárdals, í samtali við mbl.is, spurður um afstöðu hollvinasamtakanna til bókunar borgarstjórnarmeirihlutans frá því í vikunni þar sem segir að til standi að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir Elliðaárdal sem festir í sessi stöðu hans sem borgargarðs. 

Segir þar enn fremur að ekki sé gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæðinu nema á rafstöðvarsvæðinu. 

Eins og að ofan greinir gefur Halldór lítið fyrir þetta og leggur áherslu á að svæðið sem tilheyri Elliðaárdalnum hafi sífellt farið minnkandi. „Frá því að hollvinasamtökin voru stofnuð hefur dalurinn minnkað úr tæplega 400 hekturum niður í 190 hektara.“ Varðandi það að ekki verði byggt frekar nema á rafstöðvarsvæðinu veltir hann enn fremur upp: „Hvað kallarðu rafstöðvarsvæðið?“

Úr Elliðaárdalnum.
Úr Elliðaárdalnum. mbl.is/Hari

8.500 undirskriftir komnar

Eins og greint hefur verið frá standa Hollvinasamtök Elliðaárdals nú fyrir undirskriftasöfnun, en söfnuninni er ætlað að knýja fram almenna atkvæðagreiðslu um skipulag við Stekkjarbakka í Reykjavík. 

Þegar mbl.is ræddi við Halldór laust eftir hádegi í dag sagði hann að ríflega sjö þúsund hefðu þegar skrifað undir rafrænt og um 1.500 á undirskriftablöð, en um 800 blöð væru úti sem verið væri að skrifa á. Hann segir hins vegar að reiknað sé með um tíu til fimmtán prósent afföllum af þeim sem skrifa nafn sitt á blöðin, sökum þess að hluti undirskrifenda sé með lögheimili utan Reykjavíkur. Algengt sé, sem dæmi, að fólk úr Kópavogi setji nafn sitt við undirskriftalistann án þess að hafa til þess heimild. 

Um 18.000 undirskriftir þarf til að knýja fram umrædda kosningu og lýkur söfnuninni næsta föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert