Birgja sig upp vegna kórónuveirunnar

Nína Sólveig, dóttir Þóru, eftir verslunarferðina.
Nína Sólveig, dóttir Þóru, eftir verslunarferðina. Ljósmynd/Aðsend

Þóra Arnórsdóttir fjölmiðlakona hefur birgt sig upp af mat vegna víðtækra lokana vegna veirunnar á Ítalíu. Þrír hafa látist vegna veirunnar í landinu og á annað hundrað eru smitaðir. 

Aðspurð segir Þóra að fjölskyldan sé róleg yfir ástandinu, en það eigi þó ekki við um alla. Þóra er í ársleyfi frá fréttaskýringaþættinum Kveik á meðan hún er búsett á Ítalíu hvar eiginmaður hennar stundar meistaranám í matarmenningu og markaðssetningu. 

„Ég held að þetta sé mjög misjafnt. Ég á vini sem eru alveg sannfærðir um að allt sé að fara úr böndunum og sögðu bara við mig að það væri eina vitið fyrir mig með svona stóra fjölskyldu að fara og birgja mig upp af mat. Ég hugsaði bara af hverju ekki, maður veit náttúrulega aldrei,“ segir Þóra í samtali við mbl.is. 

Þóra er búsett ásamt fjölskyldu sinni á Ítalíu.
Þóra er búsett ásamt fjölskyldu sinni á Ítalíu. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ellefu bæjum, 10 í Lombardy-héraði og þeim ellefta í nærliggjandi Veneto-héraði, hefur verið lokað vegna veirunnar. 

Í göngufjarlægð frá Þóru

Þóra segist hafa frétt af því að nokkrir hinna smituðu séu frá bænum Rorerto di Cherasco sem sé aðeins í göngufjarlægð frá Þóru og fjölskyldu. 

„Þá er þetta orðið einhvern veginn mjög nálægt. Við fylgjumst bara með fréttum og erum mjög róleg. En þetta getur alveg haft áhrif á daglegt líf,“ segir Þóra og bætir við að skólum hafi verið lokað. „Þeir ætla að endurmeta það eftir nokkra daga en það er alveg frá leikskóla upp í háskóla, allt lokað. Ég ætla ekki að segja að börnin gráti það neitt, þeim finnst það bara fínt.“

Þóra segir að bæjarstjóri bæjarins hafi sent tölvupóst á íbúa og tilkynnt að spítali bæjarins sé tilbúinn að takast á við möguleg smit ef til þess komi. 

„Þannig að við erum ekkert að fara á límingunni en við fylgjumst vel með.“

mbl.is

Kórónuveiran

4. apríl 2020 kl. 13:14
1417
hafa
smitast
396
hafa
náð sér
45
liggja á
spítala
4
eru
látnir