Vill halda áfram að leiða Sjálfstæðisflokkinn

Bjarni Benediktsson í Silfrinu í dag.
Bjarni Benediktsson í Silfrinu í dag. Ljósmynd/RÚV

Bjarni Benediktsson, ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, vill halda áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Bjarni segir að nú sé horft til framtíðar eftir áratuga endurreisnarstarf og hann sé spenntur fyrir því sem bíður. 

Bjarni var gestur Egils Helgasonar í Silfrinu í dag. 

Í þættinum var hann spurður hvort hann kjósi frekar að ganga til kosninga vorið 2021 eða um haustið sama ár þegar kjörtímabili ríkisstjórnarinnar er lokið. Bjarni sagði að ekki væri komin niðurstaða í þá umræðu. 

„Ef ég á að segja hug minn allan um þetta þá segi ég að það kostaði blóð, svita og tár að komast til valda. Af hverju í ósköpunum ætti maður að gefa það frá sér hálfu ári áður en lög segja til um,“ sagði Bjarni. „Í stuttu máli myndi ég vilja kjósa að hausti 2021.“

Ekki búinn

Aðspurður hvort hann hafi leitt hugann að því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum sagðist Bjarni hafa vilja til þess. 

„Mér líður þannig að ég sé ekki búinn. Mér líður þannig að ég hafi stuðning og það sé verk að vinna. Að okkur hafi tekist vel við að fást við afleiðingar fjármálahruns og að við séum komin á góðan stað og farin að horfa til framtíðar. Mér líður vel með það að við séum ekki að tala um höft, skuldastöðu heimilanna, skuldauppgjör fyrirtækja, hallarekstur ríkissjóðs og skuldavanda hans heldur að við stöndum á ákveðnum kletti og séum að horfa til framtíðar,“ sagði Bjarni og bætti við að sér fyndist það meira spennandi vinna. 

„Að því leytinu til finnst mér ég hafa fengið ákveðna endurnýjun að hafa í áratug tekið þátt í endurreisnarstarfinu og ég er mjög spenntur fyrir því sem bíður manns og hvort ég hef stuðning til þess á eftir að koma í ljós,“ sagði Bjarni.

„Hvað getur verið meira spennandi í lífinu, en að fást við það að móta framtíð lands og þjóðar? Ég sé ekkert annað fyrir mér sem gæti verið merkilegra og skemmtilegra að gera.“

Kom á óvart að lífskjarasamningarnir hafi ekki dugað

Bjarni var einnig spurður um kjaraviðræður Eflingar og Reykjavíkurborgar og sagði hann verkföll félagsmanna Eflingar í borginni vera mikið áhyggjuefni. 

„Ég hefði ekki spáð því fyrir níu mánuðum síðan að við værum í þessari stöðu. Lífskjarasamningarnir slógu tón sem ég batt miklar vonir við að myndi smitast út í allar samningaviðræður í framhaldinu,“ sagði Bjarni og bætti við að það kæmi sér á óvart að lífskjarasamningarnir hafi ekki dugað til þess að leiða til niðurstöðu. 

„Ríkið hefur í þessum viðræðum, sem hafa átt sér stað, náð miklum árangri. Við erum til dæmis búin að ná niðurstöðu við rúmlega helming félaga innan BHM. Við höfum náð tímamótaniðurstöðu um það að gera kerfisbreytingu á vaktavinnufyrirkomulaginu, að það sé tekið tillit til þess álags sem fylgir vaktavinnu. Við höfum náð tímamótaniðurstöðu um styttingu vinnuvikunnar,“ sagði Bjarni. 

Þá sagði hann að aukinn kaupmáttur, stytting vinnuvikunnar, fæðingaorlofsgreiðslur og fleira hafi aukið lífskjör til muna. 

„Eitt það merkilegasta sem mér finnst hafa gerst í þessum málum á undanförnum árum er að ríkið opnaði bækurnar, við opnuðum vefinn tekjusagan.is þar sem við einfaldlega flettum hulunni af því hvernig kjörin hafa þróast á Íslandi allt frá því árið 1991. Við notuðum skattframtöl Íslendinga til að sýna nákvæmlega hvernig kjörin hafa þróast. Þrátt fyrir að við höfum galopnað allar upplýsingar um kjaraþróun Íslendinga hefur enginn enn þá stigið fram og notað þennan vef til að sýna fram á misskiptinguna, að hann hafi verið skilinn eftir, að einhverjir hópar hafi verið út undan eða þess háttar.“

„Nei, vefurinn dregur það fram að okkur hefur tekist stórkostlega við að bæta lífskjörin á Íslandi og einna best við að auka lífskjör þeirra hópa sem helst eru í umræðunni í dag, eldri borgara og þeirra sem lægst eru í launastiganum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert