Brjálað að gera síðan fyrir 8 í morgun

Sigurrós setur saman blómvendi fyrir konudaginn í blómaversluninni 18 rauðar …
Sigurrós setur saman blómvendi fyrir konudaginn í blómaversluninni 18 rauðar rósir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Konudagurinn hefur verið annasamur í blómabúðinni 18 rauðar rósir. Að sögn Sigríðar Gunnarsdóttur, eða Diddu eins og hún er jafnan kölluð, er um einn stærsta dag ársins að ræða hjá blómabúðinni. 

„Það er bara búið að vera brjálað að gera frá klukkan átta í morgun eins og var síðasta konudag og árið þar áður og þar áður. Alveg stanslaust hjá okkur frá því fyrir átta. Við auglýstum ekkert nema venjulegan opnunartíma sem er frá klukkan 10, en fólk hefur verið að koma stanslaust síðan snemma í morgun,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is. 

Sigríður segist halda að í ár sé salan meiri en á konudeginum á síðasta ári. Þá segist hún halda að salan á konudeginum sé að meðaltali 5 sinnum meiri en á mæðradeginum í maí. Þá sé konudagurinn ætíð annasamari en bóndadagurinn í upphafi þorra. 

„Svo kaupa þeir náttúrulega stærri vendi og svona á konudeginum,“ segir Sigríður. 

Vendirnir eru flestir á verðbilinu 5.900 til 9.900 og Sigríður segir að margir láti síðan bæta stökum blómum við tilbúna vendi. 

Að sögn Sigríðar fer mikill undirbúningur í konudaginn. 

„Við þurfum að láta gera fyrir okkur fullt af vöndum sem eru tilbúnir, annars myndum við ekki anna þessu þó við séum hérna átta eða tíu að vinna á þessum degi.“

Sigríður segist búast við því að búðin verði opin til klukkan átta í kvöld, en alla jafna lokar búðin klukkan 18 á laugardögum. 

„Á meðan einhver kemur þá verðum við hér. Megnið af deginum er bara röð eftir allri búðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert