Fjöldi líkamsárása í miðborginni í nótt

Aðstoðar lögreglu var alls óskað fimm sinnum vegna líkamárása á …
Aðstoðar lögreglu var alls óskað fimm sinnum vegna líkamárása á skemmtistöðum miðbæjarins í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmargar líkamsárásir voru framdar í miðborg Reykjavíkur í nótt, en aðstoðar lögreglu var alls óskað fimm sinnum vegna líkamsárása á skemmtistöðum miðbæjarins. Þar af hafði í einu tilfelli verið ráðist á dyraverði.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Flestar líkamsárásanna voru tilkynntar á milli klukkan þrjú og fjögur í nótt. Þá var aðstoðar lögreglu óskað í tvígang vegna einstaklinga sem neituðu að yfirgefa skemmtistaði eftir lokun.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, en þeir reyndust raunar báðir verið sviptir ökuréttindum vegna fyrri afskipta lögreglu.

Þá var tilkynnt um rúðubrot í húsnæði í Hlíðunum og innbrot í fyrirtæki í Háaleitis- og Bústaðahverfi.

Loks var aðstoðar lögreglu óskað vegna einstaklings sem datt í hálku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert