Götur mokaðar en hjólastígar ekki

Snjóruðningur fer fram með hefðbundnum hætti á götum borgarinnar á …
Snjóruðningur fer fram með hefðbundnum hætti á götum borgarinnar á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snjómokstur á gatnakerfi Reykjavíkurborgar fer fram með hefðbundnum hætti þrátt fyrir verkfall Eflingar. Þetta segir Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu reksturs og umhirðu hjá Reykjavíkurborg, en Vegagerðin hefur varað við því að í nótt muni snjóa nokkuð drjúgt suðvestanlands og hætt sé við ófærð á götum í nótt og í fyrramálið.

Útskýrir Hjalti að þeir sem sjá um snjómokstur á götum borgarinnar séu verktakar og séu því ekki í verkfalli. Hins vegar sjái starfsmenn í Eflingu um mokstur á ýmsum hjólastígum og þar sé því ekki mokað. „Allt götukerfið er í útboðum. Það sem missir úr snjómokstri eru hjólastígarnir og svo verður skert þjónusta í einhverjum hluta gönguleiða og í kringum strætóskýli.“ Útskýrir hann enn fremur að snjómokstur á stofnhjólastígum milli hverfa í borginni falli niður og segir: „Alla vega á götum er þjónustan óbreytt. Lungann úr kerfinu erum við með í útboðum, minna í eigin vinnu.“

Um mokstur á hjólastígum sjá starfsmenn í Eflingu sem eru …
Um mokstur á hjólastígum sjá starfsmenn í Eflingu sem eru í verkfalli. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina