Mamma, deyrðu?

Emma dóttir Hafdísar Priscillu hafði að vonum áhyggjur af mömmu …
Emma dóttir Hafdísar Priscillu hafði að vonum áhyggjur af mömmu sinni og spurði hana oft hvort hún væri að fara að deyja. mbl.is/Ásdís

Hafdís Priscilla Magnúsdóttir, 36 ára sjúkraliði og þriggja barna móðir, hefur barist við krabbamein í eitt ár og sér nú fram á bjartari tíma. Til þess að finna farveg fyrir tilfinningar sínar fór Hafdís að sauma út myndir sem allar tengjast krabbameininu á einn eða annan hátt. 

Árlega greinast yfir 200 íslenskar konur með brjóstakrabba og þar af tíu undir fertugu. Hafdís var ein þeirra sem greindust á árinu 2019. Nú ári síðar er hún reynslunni ríkari, eignaðist yndislegan vinkvennahóp og fann farveg í útsaumi fyrir tilfinningar sínar.

Óvissan var erfið

Það var í lok janúar á síðasta ári að Hafdís fann stóran hnút í öðru brjóstinu.
„Ég fékk strax slæma tilfinningu. Það var svo tólfta febrúar að ég fékk staðfest að það væri brjóstakrabbi. Ég hafði farið í skoðun og fékk svo símhringingu þar sem ég var boðuð í viðtal og ég vissi að það væri yfirleitt ekki gert nema eitthvað væri að. Þannig að ég vissi þetta í raun fyrr, en var í afneitun. Ég þurfti að bíða frá fimmtudegi til þriðjudags en á mánudeginum gat ég ekki beðið lengur. Ég fékk að sjá skýrsluna mína sem starfsmaður á Hjartarannsókn og sá strax orðið krabbamein. Ég var svo ánægð af því að óvissan hafði verið svo erfið. Þá vissi ég í hvaða átt ég væri að fara,“ segir Hafdís.
„Þetta reyndist vera hraðvaxandi hormónajákvætt krabbamein. Ég er bara óheppin að fá þetta því það er ekki saga um krabbamein í ættinni og ég er ekki með Brca-genið. Þetta var yfir þriggja sentímetra stórt æxli sem var búið að dreifa sér í geirvörtuna, en það var staðbundið og ekki farið í eitla. Sem voru góðar fréttir,“ segir hún og bætir við að mikið ferli hafa farið í gang og teymi lækna sett saman.

Hafdís saumaði út líkama sinn eftir aðgerð, með nýjum örum …
Hafdís saumaði út líkama sinn eftir aðgerð, með nýjum örum og nýju húðflúri sem hún fékk sér yfir örið sem myndaðist eftir lyfjabrunninn. mbl.is/Ásdís


„Hálft brjóstið og geirvartan var tekið og hitt brjóstið minnkað í samræmi. Ég gæti seinna farið í að láta byggja upp nýja geirvörtu en ég veit ekki hvort ég geri það. Mér finnst örið mitt fallegt,“ segir Hafdís og segist svo hafa farið í lyfjameðferð. 

Að segja börnunum

Lyfjagjöfin tók á með tilheyrandi kvölum og hármissi, en Hafdís var átján vikur í lyfjameðferðinni.
Var þetta helvíti?
„Já og nei. Ég ætla ekki að segja alveg helvíti en fyrsta lyfjagjöfin fór mjög illa í mig. Ég var mjög veik og þurfti að fara á bráðamóttökuna um kvöldið. Ég varð mjög hrædd og hugsaði að ég vildi ekki fara í fleiri lyfjagjafir ef þetta yrði svona. Þá langaði mig frekar til að deyja, mér leið það illa. Þessu fylgdi mikil ógleði og vanlíðan. En næstu skipti voru skárri. Það kom mér bara á óvart hvað ég var mikið hörkutól að komast í gegnum þetta.“ 

Emma situr í sófanum innan um allar útsaumuðu myndir mömmu …
Emma situr í sófanum innan um allar útsaumuðu myndir mömmu sinnar. mbl.is/Ásdís

Hvernig tóku börnin þessum fréttum?

„Það er það erfiðasta sem ég hef gert í lífinu að segja þeim frá þessu. En þau hafa staðið sig mjög vel. Það hefur kannski verið erfiðast fyrir yngsta barnið, Emmu, sem er tíu ára,“ segir Hafdís og nær í útsaumaða mynd þar sem lesa má: „Mamma, deyrðu?“ 
„Þetta verk tengist henni en þetta var spurning sem ég fékk mjög oft frá henni. Hún var alltaf að vonast eftir að fá eitthvað annað svar en „vonandi ekki“. Ég gat ekki svarað að ég myndi ekki deyja því læknarnir gátu ekki lofað því að allt færi vel. Ég má ekki lofa einhverju sem mögulega stenst ekki.“

Nú hlýtur að vera góð tilfinning að þetta ár sé að baki. En er ekki alltaf einhver kvíði sem situr eftir?
„Meinvarpahræðsla? Jú, sérðu einmitt hér,“ segir Hafdís og nær í útsaumaða mynd með orðinu „meinvarpahræðsla“.
„Það lýsir sér svona: „Til hamingju, nú ertu búin með þetta og átt að fara að lifa eðlilegu lífi, en......ef þú færð hausverk í lengri tíma þarftu að athuga hvort það er heilaæxli. Ef þú færð þurran hósta í einhvern tíma gæti það verið meinvörp í lungum. Ef þú færð beinverki gæti það verið meinvörp í beinum.“ Í sumar fékk ég ofsalegan verk í fótinn og fór upp á læknavakt og hélt fyrst að ég hefði tognað eitthvað illa. Þá allt í einu sló það mig, ég var með krabbamein og hvað ef það væri komið í beinin? Ég fékk þarna fyrstu meinvarpahræðsluna. Og ég áttaði mig á því að þetta væri framtíðin, ég þyrfti að búa mig undir að hugsa svona áfram,“ segir hún.

Talið berst að útsaumsmyndunum hennar Hafdísar, en hún hefur fengið útrás fyrir tilfinningar sínar með því að sauma út. Myndirnar segja allar einhverja sögu tengda krabbameininu, meðferðinni eða batanum. 

Fögnum lífinu

Það voru mörg tilefni til að skella í eina veislu, fleiri en að sýna nýju verkin. Hjónin höfðu gift sig fyrir tíu árum þegar dóttir þeirra var skírð en þar voru aðeins nánustu aðstandendur.
„Við ákváðum að halda partí því það voru svo mörg tilefni. Við áttum tíu ára brúðkaupsafmæli, maðurinn minn varð fertugur og ég búin með lyfjameðferð.

Fjölskyldan var síðustu helgi í veislu sem haldin var til …
Fjölskyldan var síðustu helgi í veislu sem haldin var til að fagna lífinu. Frá vinstri eru Alexander Gauti, Jón Baldur, Sigurgeir Árni og Emma Sigrún ásamt Hafdísi Priscillu sem klæddist hvítu.

Ég hafði aldrei verið í hvítum kjól og ekki fagnað með vinum okkar. Þannig að við ákváðum að fá prest og ég lét sauma á mig kjól. Við létum engan vita en höfðum allt tilbúið. Þetta kom fjölskyldu og vinum á óvart. Þarna bjuggum við líka til fallegar minningar með börnunum okkar; Emma fékk að vera blómastúlka og pabbi að leiða mig upp að altarinu þar sem við endurnýjuðum heitin. Yfirskrift veislunnar var Fögnum lífinu. Við vorum að fagna öllu sem við höfðum ekki haft tíma til að fagna og njóta. Þetta var svakalega gaman,“ segir Hafdís.

Meinvarpahræðslu þekkja allir sem fengið hafa krabbamein. Hafdís notaði orðið …
Meinvarpahræðslu þekkja allir sem fengið hafa krabbamein. Hafdís notaði orðið í útsauminn. mbl.is/Ásdís


Ítarlegt viðtal er við Hafdísi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 


Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »