Með sérsmíðað múmínhús í garðinum

Múmínhúsið var pantað sérstaklega fyrir Vilhjálm Ellert. Það segir að …
Múmínhúsið var pantað sérstaklega fyrir Vilhjálm Ellert. Það segir að minnsta kosti amma hans, Selma Björk Petersen, sem sjálf hefur mikið dálæti á múmínálfunum. mbl.is/Theódór Kr. Þórðarson

Við Borgarbraut í Borgarnesi stendur heillandi hundrað ára gamalt hús sem hjónin Selma Björk Petersen og Ellert Gissurarson keyptu fyrir fjórum árum. Húsið nýta þau sem sumarhús fyrir fjölskylduna og hafa dundað sér við að gera það upp síðustu ár. En í garðinum stendur annað hús sem vakti athygli blaðamanns þegar hún lagði leið sína á hinn víðfræga Bjössaróló síðasta sumar. Húsið er nefnilega nákvæm eftirlíking af hinu eina sanna múmínhúsi. 

„Þegar krakkarnir mínir voru lítil voru múmínálfarnir í sjónvarpinu og þetta var rosalega skemmtilegt efni og þau höfðu ofsalega gaman af þessu,“ segir Selma spurð um áhuga á múmínálfunum og forsögu múmínhússins. 

Múmínhúsið vekur að vonum athygli þeirra sem eiga leið hjá …
Múmínhúsið vekur að vonum athygli þeirra sem eiga leið hjá á Borgarbrautinni í Borgarnesi. Ljósmynd/Aðsend

Múmínáhuginn jókst eftir heimsókn í Múmínland

Þegar börnin uxu úr grasi og Selma og Ellert eignuðust sitt fyrsta barnabarn fjárfesti Selma í teiknimyndunum á DVD-diskum. „Þetta er yndislegt efni, þetta er svo fallegt og allt er svo gott og endar svo vel. Þetta er ekki þessi hávaði og læti og allt svo notalegt,“ segir Selma. Áhuginn vatt svo upp á sig og fyrir þremur árum fóru Selma og Ellert með barnabarninu Vilhjálmi Ellerti, sem þá var þriggja ára, í Múmínlandið í Finnlandi. „Það var alveg yndislegt og eftir það varð múmínáhuginn enn þá meiri.“ 

Vilhjálmur Ellert fær múmínknús í Múmínálfalandi.
Vilhjálmur Ellert fær múmínknús í Múmínálfalandi. Ljósmynd/Aðsend

Skömmu eftir ævintýraferðina í Múmínland fór Selma að leita sér upplýsinga um múmínálfana á netinu og rakst hún þá á finnska heimsíðu þar sem Finninn Matti Kivijärvi sérsmíðar múmínhús.  

„Mér áskotnaðist smá aur og ákvað að kaupa svona múmínhús fyrir barnabarnið,“ segir Selma. Það reyndist hins vegar þrautinni þyngra þar sem Matti talar einungis finnsku. Með aðstoð Google Translate gengu kaupin upp, ári seinna, en þá tók önnur hindrun við; að koma húsinu heim. 

Húsið sjálft kostaði 2.000 evrur, eða sem nemur um 278 þúsund krónum. Flutningurinn frá Finnlandi kostaði margfalt meira en húsið og þá fóru tvær grímur að renna á Selmu. „En úr varð að Finninn útvegaði mér flutningsaðila frá Finnlandi til Helsingborg í Svíþjóð þar sem Eimskip er með höfn og það kostaði bara brot af því sem það átti að kosta upphaflega. Þá var aftur kominn grundvöllur til að kaupa húsið og við létum verða af því.“ 

Húsið kom í nokkrum einingum en var að öðru leyti …
Húsið kom í nokkrum einingum en var að öðru leyti fullbúið. Ljósmynd/Aðsend

600 þúsund krónanna virði

Pöntunin var frágengin í ágúst 2018 og kom til landsins mun fyrr en Selma hafði gert ráð fyrir, eða um mánuði síðar. Með flutningskostnaði kostaði múmínhúsið um 600 þúsund krónur og segir Selma að í raun hafa verið um fínustu fjárfestingu að ræða. „Ég sé ekki eftir að hafa keypt það. Það kostaði náttúrulega, þegar maður býr á þessu skeri.“  

Ellert Gissurarson og afastrákurinn Vilhjálmur Ellert kíkja reglulega saman í …
Ellert Gissurarson og afastrákurinn Vilhjálmur Ellert kíkja reglulega saman í múmínhúsið, allan ársins hring. mbl.is/Theódór Kr. Þórðarson

Selma og Ellert smíðuðu grunn undir húsið en ákváðu að bíða með að setja það upp þar til um vorið. Múmínhúsið er heilir 4,5 fermetrar og með tæplega fjögurra metra lofthæð. Húsið kom í nokkrum einingum en var að öðru leyti fullbúið. „Það er málað og það var allt tilbúið, við þurftum bara að skrúfa það saman,“ segir Selma. Húsið er á tveimur hæðum og stigi upp á efri hæðina. „Það er alveg sæmilega stórt og fullorðinn einstaklingur getur staðið uppréttur í því. Þetta er virkilega vandað og falleg smíði.“ 

Vilhjálmur Ellert hefur lent í ýmsum skemmtilegum ævintýrum í múmínhúsinu.
Vilhjálmur Ellert hefur lent í ýmsum skemmtilegum ævintýrum í múmínhúsinu. Ljósmynd/Aðsend

Vilhjálmur Ellert varð yfir sig ánægður þegar húsið var komið upp síðasta sumar. „Það var heilmikið notað síðasta sumar, þetta er aðallega fyrir hann til að leika sér í,“ segir Selma. Húsið vekur svo sannarlega athygli, jafnt hjá heimamönnum og ferðamönnum sem eiga leið fram hjá. Þá hefur það komið fyrir að fólk banki upp á og spyrjist fyrir um húsið. „Sérstaklega ef við erum úti í garði, þá er fólk ófeimnara við að spyrja,“ segir Selma.  

Vilhjálmur Ellert á leið upp á efri hæðina. Snoturt eldhús …
Vilhjálmur Ellert á leið upp á efri hæðina. Snoturt eldhús er á neðri hæðinni líkt og sjá má. mbl.is/Theodór Kr. Þórðarson

Safnar múmínbollum „eins og allir Íslendingar“

Aðspurð um múmínáhuga hennar almennt segir Selma að hún, „eins og allir Íslendingar safni múmínbollum“. „En er ekki í þessari Facebook-grúppu,“ segir hún og vísar í Múmínmarkaðinn á Facebook þar sem vakin er athygli á alls kyns múmínvarningi auk þess sem múmínvörur ganga þar kaupum og sölum. 

Þá er herbergi Vilhjálms Ellerts í húsinu í Borgarnesi undirlagt Múmínálfunum. „Þar er múmínþema með myndum af honum úr Múmínlandi og myndum af Múmínálfunum. En ég hef ekki tekið þetta lengra,“ segir hún. 

Aðspurð hvort von sé á fleiri munum í ævintýragarðinn segir Selma að barnabarnið hafi óskað eftir því að fá tréhús í garðinn, enda orðinn góðu vanur. „En það eru engin tré í garðinum þannig að þá vandast málið,“ segir Selma og hlær. „Ég held að þurfi að drífa í að gróðursetja,“ segir Selma. Það er því aldrei að vita hvort fleiri hús bætist í garðinn á Borgarbraut þegar fram líða stundir.Húsið var sett upp síðasta sumar.
Húsið var sett upp síðasta sumar. Ljósmynd/Aðsend
Vilhjálmur Ellert alsæll í múmínhúsinu síðasta sumar.
Vilhjálmur Ellert alsæll í múmínhúsinu síðasta sumar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is