Misstu nærri vitið á göngunni

Strákarnir glaðir við komuna til Borgarness í nótt.
Strákarnir glaðir við komuna til Borgarness í nótt. Instagram/Adrenaline_Iceland

„Ég var bara að vakna,“ segir Benjamín Heimisson þegar blaðamaður mbl.is slær á þráðinn nú laust eftir tvö í dag. Það er ekki nema von að hann hafi þurft að hvíla sig, hafandi nýlokið við ríflega hundrað kílómetra göngu frá Reykjavík til Borgarness.

Eins og mbl.is hefur greint frá gengu Benjamín og félagarnir Hákon Aðalsteinsson, Ásmundur Ólafsson og Aron Breki Daníelsson í um 41 klukkustund milli Reykjavíkur og Borgarness til að safna fé til styrktar föður Benjamíns sem greindist með fjórða stigs krabbamein á dögunum.

„Ég er bara þreyttur í fótunum núna,“ sagði Benjamín og ansaði já spurður hvort hann væri þegar farinn að finna fyrir harðsperrum. 

Hafa safnað um 570 þúsund

Fjórmenningarnir sýndu frá ferðinni á Instagram, en sem dæmi sögðu þeir á einum tímapunkti frá því að þeir væru að „missa vitið“ meðan þeir sungu og gengu. Spurður um þetta hlær Benjamín við og segir að síðustu 10 kílómetrarnir hafi reynst þeim félögum bæði líkamlega og andlega lýjandi. „Við sáum Borgarnes úr níu kílómetra fjarlægð,“ bætir hann við.

Fótfráir fjórmenningar á ferð.
Fótfráir fjórmenningar á ferð. Ljósmynd/Aðsend

Það er þó ekki annað á göngugarpinum að heyra en að hann sé sáttur við förina og segir hafa gengið vel. Spurður um söfnunina segir hann að sem stendur hafi náðst að safna um 570 þúsund krónum, en upphaflegt markmið var 250 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert