Segir farþegana eiga rétt á bótum

Mikill sandstormur hefur geisað á Kanaríeyjum í dag og var …
Mikill sandstormur hefur geisað á Kanaríeyjum í dag og var fjölda flugferða aflýst. Ljósmynd/Anna Birna Sæmundsdóttir

Ómar R. Valdimarsson lögmaður segist furða sig á því að flugfélagið Norwegian hafi aflýst fjölda flugferða frá Tenerife í dag, þar á meðal til Íslands. Ómar segist ekki hafa orðið var við það að önnur flugfélög hafi gert slíkt hið sama. 

Mikill sandstormur hefur geisað á Kanaríeyjum í dag, en sterkir vindar hafa blásið á eyjunum með sand frá Sahara-eyðimörkinni meðferðis, sem hefur orðið til þess að flugferðum hefur verið aflýst vegna slæms skyggnis. Ein flugferð var á áætlun hvora leið á milli Íslands og Tenerife í dag á vegum Norwegian og var þeim aflýst. 

Í samtali við mbl.is segist Ómar, sem er staddur á Tenerife, furða sig á því að önnur flugfélög hafi flogið þaðan fram yfir hádegi í dag, en flug Norwegian átti að fara í loftið frá Tenerife um klukkan 8 í morgun. 

Ómar R. Valdimarsson.
Ómar R. Valdimarsson. Ljósmynd/Ásgeir Ásgeirsson

„Það voru flug að fara í loftið alveg alla vega til 14 eða 15 í dag. Ég þekki fólk sem var um borð í flugi frá Tenerife til Madrídar sem fór í loftið klukkan 14,“ segir Ómar. 

„Ég fæ tölvupóst frá þeim klukkan hálfþrjú í nótt og þá eru þeir strax búnir að aflýsa fluginu. Það var verið að fljúga frá þessum flugvelli miklu lengur en Norwegian [gerði], þeir ákváðu að skella í lás mjög snemma.“

Ekki hægt að fela sig á bak við veðurspár

Ómar segir að Norwegian hafi aflýst flugferðum sínum vegna slæmrar veðurspár. Hann segir marga staði vera verri til að sitja fastur á en Tenerife, hann sé þó viss um það að farþegar eigi rétt á bótum vegna óþægindanna sem þessu fylgdu. 

„Ef veður kemur í veg fyrir það að vélar geti lent eða tekið á loft er alveg á hreinu að það falli undir óviðráðanlegar aðstæður sem eru ekki bótaskyldar. Þegar það er hins vegar ekkert að veðrinu geta flugfélög ekki falið sig á bak við veðurspár eða að það sé fyrirséð slæmt veður,“ segir Ómar. 

„Þetta gerir það að verkum að flugið sem átti að fara klukkan átta í morgun er klárlega bótaskylt. Það var ekkert að veðrinu þá. Þó svo að það hafi verið fyrirséð að veðrið yrði slæmt síðar um daginn er ekki hægt að fela sig á bak við það.“

Ómar segir farþega eiga rétt á 400 evrum auk þess sem flugfélagið á að bæta gistingu, uppihald og ferðir til og frá flugvelli. Hann hvetur því farþega til að krefjast bóta og bendir á að margir hverjir eigi kreditkort sem séu með góðar ferðatryggingar. Þá hvetur hann fólk til að halda vel um allar kvittanir. 

Ómar segir að Norwegian stefni að því að koma inn aukaflugferð til Íslands á morgun sem fari vonandi í loftið um klukkan 17.

mbl.is