Veganmatur í boði í öllum skólum Mosfellsbæjar

Varmárskóli í Mosfellsbæ.
Varmárskóli í Mosfellsbæ. mbl.is/Arnþór

Móðir tveggja grunnskólabarna í Mosfellsbæ er himinlifandi yfir því að sveitarfélagið ætli nú að bjóða upp á grænmetis- og veganfæði í öllum leik- og grunnskólum bæjarins og vonar að önnur sveitarfélög taki Mosfellsbæ til fyrirmyndar.

„Við erum mjög ánægð með þetta. Við höfum oft komið á framfæri óskum um að boðið verði upp á veganfæði, bæði við skólann og fulltrúa bæjarins og höfum mætt jákvæðu viðhorfi,“ segir Lína Petra Þórarinsdóttir í samtali við mbl.is.

Hún segist hafa séð tilkynninguna frá Varmárskóla á Facebook og rætt það svo við fulltrúa skólans, en fyrirkomulagið verður með þeim hætti að við kaup á mataráskrift verður einfaldlega hægt að láta vita hvort óskað sé eftir grænmetis- eða grænkerafæði fyrir barnið. 

Lína ásamt manni sínum og börnum í veganísbúð í Kaupmannahöfn.
Lína ásamt manni sínum og börnum í veganísbúð í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Stendur þetta til boða strax frá næstu mánaðamótum og segist Lína hafa fengið þær upplýsingar að verið væri að setja saman matseðil, en gengið verði út frá því að börn sem kjósi grænmetisfæði fái sambærilegan mat og hin börnin, svo sem grjónagraut með plöntumjólk og grænmetis-lasagne.

Mæta mismunandi viðhorfi

Fjölskylda Línu hefur verið vegan í nokkur ár en börnin voru það ekki þegar þau voru á leikskólaaldri. Hún segist hins vegar hafa séð í umræðum á Vegan Ísland á Facebook að fólk mæti mismunandi viðhorfi þegar það óskar eftir grænkerafæði fyrir börnin sín. „Í sumum tilfellum virðist það ekki vera neitt mál en aðrir fá þau svör að skila þurfi inn læknisvottorði sem staðfestir ofnæmi ef barnið á að sleppa dýraafurðum.“ 

Lína og maðurinn hennar hafa sjálf nestað sín börn í skólann í mörg ár en þurfa þess ekki eftir að þessi breyting tekur gildi. „Okkur finnst virkilega jákvætt að Mosfellsbær, sem hefur þá stefnu að vera heilsueflandi samfélag, hafi tekið þetta skref. Ég veit ekki til þess að önnur sveitarfélög séu farin að bjóða þessa þjónustu en vonandi fylgja fleiri í kjölfarið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert