Báðar fylkingar fagna úrskurði

Hluti svæðisins sem Hvalárvirkjun gæti haft áhrif á.
Hluti svæðisins sem Hvalárvirkjun gæti haft áhrif á. mbl.is/Golli

„Í fljótu bragði sjáum við ekki að þessi úrskurður hafi nein áhrif á virkjunaráformin og mögulega er niðurstaðan frekar jákvæð verkefninu en hitt,“ segir Birna Lárusdóttir, talsmaður Vesturverks ehf., en sl. föstudag kvað Óbyggðanefnd upp þann úrskurð að suðausturhluti Drangajökuls, áhrifasvæði Hvalárvirkjunar sem Vesturverk áformar að reisa, væri þjóðlenda.

Kröfur og athugasemdir bárust frá eigendum nyrstu jarða í Árneshreppi, það er Skjaldabjarnarvíkur, Dranga, Drangavíkur, Engjaness og Ófeigsfjarðar. Töldu þeir einstaka hluta jökulsins innan marka lendna sinna. Niðurstaða Óbyggðanefndar var þó á hinn veginn.

Drangajökull var eina svæðið sem Óbyggðanefnd fjallaði um, enda úrskurðar nefndin einungis um svæði sem ríkið krefst að teljist til þjóðlendna. Óbyggðanefnd segir engin landamörk gefa til kynna að eignarlönd nái inn á Drangajökul þar sem hann sé innan landamæra Strandasýslu. Deilt hefur verið um hvort áformuð virkjun og uppistöðulón séu innan marka jarðarinnar Engjaness, sem virkjunarsinnar eiga, eða Drangavíkur, en þá jörð á fólk sem er mótfallið byggingu virkjunar. Þjóðlendur lúta hins vegar yfirráðum ríkisins.

Unnið að breytingum

Birna Lárusdóttir hjá Vesturverki segir að um þessar mundir sé unnið að seinni áfanga breytinga á aðal- og deiliskipulagi Árneshrepps, þ.e. svæðinu þar sem fyrirhugað virkjun verður. Tillögurnar hafa verið sendar sveitarstjórn til umfjöllunar og eru þær nú í kynningarferli auk þess sem Skipulagsstofnun tekur þær til meðferðar. Ef allir umsagnarfrestir halda sér má reikna með að hægt verði að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli hins nýja skipulags seint á þessu ári.

Sjá umfjöllun um mál þetta í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert