Hafa ekki heimild til að framlengja söfnunina

Svæðið við Stekkjarbakka sem deilur hafa staðið um.
Svæðið við Stekkjarbakka sem deilur hafa staðið um. mbl.is/Árni Sæberg

Þjóðskrá Íslands harmar þau mistök sem gerð voru þegar póstnúmer 161 og 162 voru ekki inni í upprunalegu þýði fyrir undirskriftasöfnun Hollvinasamtaka Elliðaárdals, sem safna þessa dagana undirskriftum til þess að knýja fram íbúakosningar í Reykjavíkurborg um nýtt deiliskipulag á Stekkjarbakka.

Í skriflegu svari Margrétar Hauksdóttur forstjóra Þjóðskrár við fyrirspurn mbl.is segir að stofnunin muni taka afstöðu til kæru Hollvinasamtakanna þegar sú kæra liggi fyrir og beiðni um umsögn hafi borist stofnuninni. Einnig segir Margrét að Þjóðskrá Íslands hafi samkvæmt lögum ekki heimild til að framlengja undirskriftasöfnunina, eins og Hollvinasamtökin hafa farið fram á og fjallað var um á mbl.is í gær.

Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár.
Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár. Ljósmynd/Aðsend

Um er að ræða 234 einstaklinga

Búið er að lagfæra þau mistök sem voru á upprunalegu þýði og nú geta íbúar sem búa í dreifbýlispóstnúmerunum 161 (áður 110 Árbær) og 162 (áður 116 Kjalarnes) sett nafn sitt við undirskriftalistann, hafi þeir hug á því.

„Þessi mistök má rekja til þess að breytingar á póstnúmerum skiluðu sér ekki inn í kerfi sem rafrænir undirskriftalistar byggja á. Í umræddu tilviki er um að ræða 224 einstaklinga fyrir póstnúmer 162 og 10 einstaklinga fyrir póstnúmer 161. Þessir 234 einstaklingar eru samtals innan við 0,3% af heildarþýði undirskriftalistans. Þess má svo geta að samhliða rafrænni undirskriftasöfnun er undirskriftum einnig safnað á pappír,“ segir í svari Margrétar.

Forstjórinn bendir á að Þjóðskrá Íslands hafi ekki heimild til að framlengja undirskriftasöfnunina, „þar sem í reglugerð, nr. 155/2013, um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum, er mælt fyrir um að undirskriftasöfnun á að vera lokið innan fjögurra vikna frá því að hún hefst.“

7.827 manns hafa nú ritað nafn sitt á rafrænan undirskriftalista á Ísland.is, en alls þarf 18.000 undirskriftir Reykvíkinga til þess að knýja fram kosningar um deiliskipulagið. Hollvinasamtökin hafa einnig verið að safna undirskriftum á pappír og samkvæmt tilkynningu þeirra í gær var heildarfjöldi undirskrifta kominn yfir 9 þúsund.

Undirskriftum hefur verið safnað frá 31. janúar og lýkur undirskriftasöfnuninni að óbreyttu 28. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert