Reikna með sáttafundi fljótlega

Harpa Ólafs­dótt­ir, formaður samn­inga­nefnd­ar borg­ar­inn­ar.
Harpa Ólafs­dótt­ir, formaður samn­inga­nefnd­ar borg­ar­inn­ar. Ljósmynd/Aðsend

„Við reiknum með því að sáttasemjari boði til fundar fljótlega,“ segir Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, um samn­ingaviðræður við Efl­ingu — stétt­ar­fé­lag.

Samn­inga­nefnd Efl­ing­ar gagn­vart Reykja­vík­ur­borg sendi frá sér yf­ir­lýs­ingu fyrr í dag þar sem fram kem­ur að nefnd­in tel­ur yf­ir­lýs­ing­ar borg­ar­inn­ar og Dags B. Eggerts­son­ar borg­ar­stjóra í fjöl­miðlum fyr­ir helgi gefa til kynna að borg­in sé til­bú­in að koma bet­ur til móts við Efl­ing­ar­fé­laga en kynnt var á und­an­gengn­um samn­inga­fundi.

Ekki er búið að boða til fundar í deilunni en síðasti fundur var á miðvikudaginn í síðustu viku.

„Það er sáttasemjari sem stýrir þessum viðræðum og ég get ekkert sagt frekar en þetta; við erum mjög ánægð að heyra að það sé mögulega einhver flötur að halda viðræðum áfram,“ segir Harpa og heldur áfram:

„Það er okkar vilji að ganga frá kjarasamningi eins fljótt og hægt er.“

Aðildarfélög BSRB samþykktu í síðustu viku að grípa til verk­fallsaðgerða sem eiga að hefjast 9. mars ná­ist samn­ing­ar ekki í kjaraviðræðum fé­lag­anna við viðsemj­end­ur sína, sveit­ar­fé­lög­in og ríkið. 

Harpa segir að kröfur aðildarfélaga BSRB séu allt aðrar en Eflingar og að staðan muni flækjast til muna verði ekki búið að ná saman í borginni fyrir 9. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert