Sakfelldur en refsingu frestað fyrir brot gegn stúlku

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Maður hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn þrettán ára stúlku í tjaldi í ágúst árið 2013. Maðurinn var tæplega 17 ára þegar brotið átti sér stað. Dómurinn ákvað að fresta ákvörðun refsingar og fellur hún niður að tveimur árum liðnum haldi maðurinn skilorð. Honum er þó gert að greiða stúlkunni 400 þúsund krónur í bætur, auk málsvarnarlauna og þóknunar réttargæslumanns upp á samtals 1,7 milljónir.

Samkvæmt dómi héraðsdóms átti brotið sér stað á tjaldsvæði þar sem stúlkan var ásamt fjölskyldu sinni og vinkonu. Þær tvær hittu svo nokkra drengi þessa helgi og fóru með þeim í þeirra tjald á tjaldsvæðinu það kvöld. Daginn eftir hafi þær svo aftur farið til drengjanna, sem voru á sautjánda ári á þessum tíma.

Fóru þau inn í svefnrými tjaldsins saman og veitti hún honum munnmök auk þess sem hann stakk fingri í leggöng hennar. Sagði stúlkan að hún hafi frosið þá, en þegar móðir hennar hafi hringt í hana hafi hún komið sér úr tjaldinu. Í dóminum kemur fram að vinir drengsins hafi látið hann vita að hún væri yngri en hann og byggir dómurinn á því að drengurinn hafi átt að vita um aldur stúlkunnar fyrir kynmök þeirra. Þá var af framburði vitna ekki byggt á því að útlit stúlkunnar hafi gefið drengnum tilefni til að ætla að hún væri eldri en raunin var, en það var meðal aðalvarna hans.

„Að öllu þessu virtu er það álit dómsins að ákærða hafi hlotið að vera ljóst þegar hann átti við brotaþola umrædd kynferðismök að hún var aðeins á 14. ári, eða í það minnsta látið sér í léttu rúmi liggja hvort svo væri.“

Málið kom á borð lögreglu rúmlega fjórum árum eftir að það átti sér stað, eða árið 2017 þegar félagsráðgjafi lét vita af því. Tók rannsókn svo rúmlega 2 ár. Segir í dóminum að þessi langi tími skýri að einhverju leyti gloppótt minni vitna og er það jafnframt metið til refsilækkunar. Hins vegar er horft til alvarleika brotsins við ákvörðun dóms. Þá horfir dómurinn líka til ákvæðis í lögum um kynferðisbrot gegn börnum, að aldur og þroski gerenda og þolenda skipti miklu máli þegar alvarleiki brots sé metinn og refsing ákveðin. „Brotaþoli er tveimur árum og tíu mánuðum yngri en ákærði. Ekkert er fram komið sem bendir til þess að áberandi þroskamunur hafi verið á milli þeirra. Eru því ekki forsendur til annars en að beita framangreindri refsilækkunarheimild,“ segir í dóminum.

Sem fyrr segir er hann fundinn sekur um brot gegn stúlkunni, en ákvörðun refsingar frestað.

Dómurinn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert