Sex til sjö ára fangelsi í kókaínsmyglmáli

Um er að ræða stærsta kókaínsmyglmál sem komið hefur upp …
Um er að ræða stærsta kókaínsmyglmál sem komið hefur upp hér á landi. mbl.is/Þór

Þrír karlmenn voru sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun í stærsta kókaínsmyglmáli sem komið hefur upp hér á landi. Þeir voru ákærðir fyrir að reyna að smygla 16 kílóum af kókaíni til landsins frá Frankfurt í Þýskalandi í maí á síðasta ári. Visir.is greindi fyrst frá.

Brynjar Steingrímsson fékk þyngstan dóm í málinu, eða sjö ára fangelsi. Halldór Anton Jóhannesson fékk sex og hálfs árs fangelsisdóm og Dagur Kjartansson sex ára dóm.

Margrét Rögnvaldsdóttir sem flutti málið fyrir héraðssaksóknara staðfesti þetta í samtali við mbl.is. Hún segir niðurstöðu dómsins í samræmi við kröfur héraðssaksóknara. Hins vegar eigi eftir að fara yfir dóminn, líkt og alltaf er gert, til að meta hvort tilefni er til áfrýjunar.

Í ákæru kom fram að tveir mann­anna flugu til Frankfurt í Þýskalandi 10. maí og tóku lest til Amster­dam í Hollandi, að fyr­ir­mæl­um þess þriðja og ann­ars ónafn­greinds aðila. Í Amster­dam hittu þeir þvo óþekkta aðila og fengu tvær ferðatösk­ur þar sem fíkni­efn­in voru fal­in und­ir fölsk­um botni.

Tóku þeir aft­ur lest til Frankfurt þar sem þeir inn­rituðu tösk­urn­ar með fíkni­efn­un­um í flug til Kefla­vík­ur. Yf­ir­völd á flug­vell­in­um í Frankfurt fundu fíkni­efn­in í tösku ann­ars þeirra og yf­ir­völd á Kefla­vík­ur­flug­velli í tösku hins. Voru þeir báðir hand­tekn­ir við kom­una til lands­ins á Kefla­vík­ur­flug­velli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert