Hafði sex milljónir af konu með Asperger

Málið var kært árið 2017 til lögreglu.
Málið var kært árið 2017 til lögreglu. mbl.is/Gúna

Tæplega fertugur karlmaður var dæmdur til 12 mánaða fangelsisvistar fyrir að svíkja rúmar sex milljónir króna út úr konu sem er með Aspergerheilkenni. Maðurinn neitaði sök og krafðist sýknu en til vara vægustu refsingar. Maðurinn er síbrotamaður en á 10 árum hefur hann verið dæmdur alls 11 sinnum til fangavistar. Dómur þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Austurlands 13. febrúar síðastliðinn.

Maðurinn blekkti konuna til að millifæra inn á sig upphæðina í alls 21 bankafærslu á rúmum tveimur mánuðum eða frá því í byrjun febrúar og fram yfir miðjan aprílmánuð árið 2017. Þau höfðu kynnst árið áður og orðið vinir sem gerðu ýmislegt samana meðal annars farið í göngu- og bílferðir, bakað og eldað saman. Á þessum tíma starfaði maðurinn á sambýli í Fljótsdalshéraði þrátt fyrir að hafa meðal annars hlotið dóm fyrir auðgunarbrot, skjalafals og nytjastuld á árunum 2000 - 2010. 

Sagðist vera að íhuga sjálfsvíg

Maðurinn sagði konunni að hann væri að íhuga sjálfsvíg vegna þess að hann skuldaði svo mikla peninga, hann væri á svörtum lista hjá bönkum og bað hana því að lána sér pening. Hann tók það sérstaklega fram að hún mætti alls ekki segja einum tilteknum starfsmanni frá því hann var bæði yfirmaður mannsins á þessum tíma og konan var skjólstæðingur hans.

Samskipti þeirra fóru fram að stórum hluta á samskiptamiðlinum Facebook. Í einnri slíkri færslu segir maðurinn: „Alls ekki samt vera að segja þeim uppá bæ að þú lánaðir mér elskuleg og takk innilega fyrir og borga þér byrja næsta mánuði og verð búinn að borga í maí enn alls ekki segja guggu og þeim. Elska þig.“

Þegar allur peningur konunnar var uppurinn af reikningnum sínum hefði maðurinn reynt að fá hana til að taka yfirdrátt. Hún reyndi það með aðstoð mannsins en bankinn hins vegar hafnaði því

Maðurinn fullyrti við konuna að hann myndi endurgreiða henni peningana. Konan er einnig með lélegt skammtímaminni auk þess að vera ekki minnug á tölur, hún er sögð auðtrúa og hrekklaus. Hún trúði því að hún væri að hjálpa þessum indæla manni að komast upp úr skuldafeni. Maðurinn nýtti sér þessa veikleika konunnar. 

Þegar hún áttaði sig á orðnum hlut leitaði konan til ákveðins manns sem hefði hjálpað henni og í framhaldinu kærði hún málið. 

Samkvæmt geðlækni er maðurinn með bæði kvíðasjúkdóm og persónuleikaröskun sem eigi rætur að rekja til erfiðra aðstæðna í æsku. Hann hafi átt við áfengisvanda að stríða sem og spilafíkn. 

Dæmdur fyrir líkamsárás árið 2016

Þetta eru ekki fyrstu brot mannsins en sakaferill hans nær aftur til ársins 2000. Á árunum 2000 til 2010 var hann dæmdur alls ellefu sinnum til fangavistar, bæði skilorðsbundinnar og óskilorðsbundinnar fyrir auðgunarbrot, skjalafals og nytjastuld, auk umferðarlagabrota. Síðast var hann dæmdur í Hæstarétti 2010 í 9 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, nytjastuld, ölvunarakstur og að aka sviptur ökuréttindum.

Eftir að ákærði framdi brotin, sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir, hefur hann tvisvar verið sektaður fyrir að aka sviptur ökurétti. Þá var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir líkamsárás 20. desember 2016. Dómur Landsréttar í málinu gekk 1. febrúar 2019 og var ákærði þar dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert