Í góðu sambandi við Íslendingana í sóttkví

Íslend­ing­arnir eru meðal eitt þúsund gesta hót­els­ins H10 Costa Adeje …
Íslend­ing­arnir eru meðal eitt þúsund gesta hót­els­ins H10 Costa Adeje Palace á Teneri­fe sem nú eru í sótt­kví eftir að ítalskur gestur hótelsins greindist með COVID-19-veiruna í gær. AFP

Embætti landlæknis hefur verið í góðu sambandi við fólkið sem er í sóttkví á hóteli í Tenerife eftir að gestur hótelsins greindist með COVID-19-veiruna í gær. 

„Við höfum tekið stöðuna á þeim og hvað þau hafa verið að gera síðustu daga,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í samtali við mbl.is. Þá hefur embættið tryggt að fólkið fái allar helstu upplýsingar. 

Íslend­ing­arnir eru meðal eitt þúsund gesta hót­els­ins H10 Costa Adeje Palace á Teneri­fe sem nú eru í sótt­kví. Sjömenningarnir eru á vegum Vitaferða en Kjartan getur ekki sagt til um hvort um eina fjölskyldu eða fleiri sér að ræða, hann hafi einungis upplýsingar um grófa mynd af samsetningu hópsins. 

Sótt­varna­lækn­ir hefur í dag safnað upp­lýs­ing­um um hvort og þá hvaða ein­stak­ling­ar hafa dvalið á hót­el­inu og eru nú komn­ir til lands­ins eða eru á leið heim en ekki er vitað til þess að fleiri Íslendingar hafi dvalið á hótelinu síðustu daga. 

Gestirnir fengu miða und­ir hurðina á her­bergj­um sín­um í morgun þar sem þeim var gerð grein fyr­ir því að af heil­brigðis­ástæðum hefði hót­el­inu verið lokað. Á miðanum stóð að fólk ætti að halda kyrru fyr­ir í her­bergj­um sín­um þar til frek­ari upp­lýs­ing­ar fengj­ust frá heil­brigðis­yf­ir­völd­um. Þeim ströngu skil­yrðum var síðar aflétt og hafa gestir hótelsins getað ferðast um hót­elið að vild. All­ir gest­irn­ir sæta hins veg­ar sótt­kví og mega ekki yf­ir­gefa hót­elið. Lög­regla stend­ur vörð við inn­gang hót­els­ins og gæt­ir þess að eng­inn fari þar út eða inn.

Ís­lensk stjórn­völd hafa uppi um­tals­verðan viðbúnað vegna kór­ónu­veirunn­ar COVID-19 og borg­araþjón­usta ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins hef­ur opnað sér­stak­an gagna­grunn fyr­ir Íslend­inga er­lend­is sem óska eft­ir að vera skráðir hjá ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu og upp­lýst­ir um ferðaráð vegna COVID-19-veirunn­ar meðan á dvöl þeirra stend­ur.

Kjartan segir að embætti landlæknis muni fylgjast náið með stöðunni á Tenerife næstu daga og Íslendingunum sem eru í sóttkví. „En okkar aðkoma að því er fyrst og fremst sú að hvetja fólk til að fylgja leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda á staðnum.“

mbl.is

Kórónuveiran

2. apríl 2020 kl. 13:39
1319
hafa
smitast
270
hafa
náð sér
41
liggja á
spítala
4
eru
látnir