Keypti handspritt og dreifði til Íslendinga

Anna Sigrún villtist að hótelinu í morgun þegar hún fór …
Anna Sigrún villtist að hótelinu í morgun þegar hún fór út að hlaupa. Ljósmynd/Anna Sigrún Baldursdóttir

„Það eina sem maður getur gert, og ég er búin að ræða við þá Íslendinga sem ég þekki hérna á hótelinu, er að fara að almennum leiðbeiningum sem er þetta hefðbundna; að vera ekki í fjölmenni, ekki fara á markaði til dæmis og þvo sér vel um hendurnar. Þetta snýst mjög mikið um að gera það sem maður sjálfur getur gert,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur og aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, sem stödd er á Tenerife.

Í gærkvöldi var staðfest að ítalskur karlmaður sem dvaldi á H10 Costa Adeje Palace hótelinu á Adeje ströndinni væri smitaður af kórónuveirunni COVID-19. Nokkur hundruð gestir eru nú í sóttkví á hótelinu, þar á meðal sjö Íslendingar. Maðurinn, sem er frá Lombardy héraði á Ítalíu, hafði dvalið á hótelinu í nokkra daga ásamt eiginkonu sinni.

Sjálf er Anna Sigrún búin að afbóka hópferð sem hún ætlaði í en gerir ráð fyrir að fara á eigin vegum að skoða það sama. „Við ætlum ekki að fara í hópferðir. Maður gerir eðlilegar varúðarráðstafanir. Ekkert drama, en það er óþarfi að auka líkur ef maður getur minnkað þær.“ Þá er það hennar mat, miðað við það sem hún hefur heyrt og séð, að málið sé tekið nokkuð föstum tökum á Tenerife og allt gert til þess að einangra smitið.

„Þetta var að verða pínu sirkus“

Hún kom til eyjunnar á laugardag og fékk nánast sandstorminn, sem geisaði þar á sunnudag, í fangið við komuna. Þegar hann var frá kom kórónuveiran upp, þannig það er búið að vera líf og fjör á Tenerife síðan fríið byrjaði. Hún sér þó enga ástæðu til annars en að gera gott úr hlutunum og njóta frísins, en hótelið sem hún dvelur á er í tíu mínútuna göngufjarlægð frá hótelinu þar sem smitið kom upp.

Hótelinu var lokað í morgun og lögregla gætir þess að …
Hótelinu var lokað í morgun og lögregla gætir þess að enginn fari þar inn eða út. Ljósmynd/Anna Sigrún Baldursdóttir

Í morgun villtist hún óvart að umræddu hóteli þegar hún fór út að hlaupa og vissi ekki fyrr en hún mætti alvopnuðum lögreglumönnum með maska. Henni brá töluvert enda hafði hún þá ekki frétt af málinu. „Það var mikill viðbúnaður þarna á hótelinu og í kringum það. Ég fór aðra leið til baka og sá að það var mikið lögreglulið að koma. Þetta er auðvitað hræðilegt fyrir þá sem þarna eru en við hin erum bara róleg.“  Þá hafi mikið af fjölmiðlafólki verið búið að koma sér fyrir framan við hótelið. „Þetta var að verða pínu sirkus,“ bætir hún við. Hún fylgdist þó ekki lengi með því sem var að gerast heldur dreif sig strax í burtu þegar hún áttaði sig á því hvað var í gangi, enda vildi hún ekki þvælast fyrir.

Þeir sem Anna Sigrún hefur rætt við virðast ekki vera óttaslegnir vegna smitsins og starfsfólkið á hótelinu þar sem hún dvelur er alveg einstaklega yfirvegað. „Starfsfólkið hér er alveg salírólegt, en það var líka mjög salírólegt yfir þessum stormi,“ segir hún kímin. „Þessi eyja á náttúrulega allt undir túrisma þannig það er eins gott að þetta sé vel gert. Ég hef því alla trú á því hér sé verið að gera allt eftir bókinni og mér sýnist það.“

Mikið af eldra fólki á svæðinu sem má ekki við smiti

Þá segir hún almennt ekki hægt að sá nein merki þess að fólk láti fréttir af kórónuveirutilfelli mikið á sig fá. „Ég er að horfa hérna út á ströndina og það virðist vera fullt af fjöri. Það er engin ástæða til að panikka en það er heldur ekki ástæða til að fylgjast ekki með. Maður á að fara eftir þeim leiðbeiningum sem heilbrigðisyfirvöld gefa út á hverjum tíma. Það er eiginlega sú regla sem við erum að fylgja. Svo fór ég og verslaði svolítið af handspritti og dreifði til Íslendinga sem ég þekki. Ef fólk var ekki búið að ná sér í þannig," segir hún.

„Það er eldra fólk hérna sem maður vill ekki að veikist af einu eða neinu. Það er helst það sem maður hugsar. Það er mikið af eldra fólki hérna og það má illa við smiti af þessu tagi. Og svo út af þessum sandstormi sem var hérna á sunnudaginn þá gerir maður ráð fyrir að það hafi verið mjög mikið af fólki á ferðinni í gær, því fólk var bara inni þegar stormurinn stóð yfir. Þannig það má búast við því að ef einhver smit hafi verið þarna þá hafi verið góðir möguleikar til að smita.“

Mikið af fjölmiðlafólki var búið að stilla sér upp fyrir …
Mikið af fjölmiðlafólki var búið að stilla sér upp fyrir framan hótelið. Anna Sigrún líkir því sem hún sá við hálfgerðan sirkus. Ljósmynd/Anna Sigrún Baldursdóttir

Anna Sigrún segir gott að fylgjast með því sem verður á hótelinu, enn sem komið er sé aðeins um að ræða eitt smit og málið því á byrjunarstigi. „Ef þetta er bara eitt smit þá verður þetta allt í lagi, en ef það verður eitthvað meira þá fer maður að hafa áhyggjur. Maður nennir eiginlega ekki að lenda í einangrun. Það væri frekar óspennandi.“

Að öllu óbreyttu ætlar hún að halda sínu striki og koma heim þegar hún á bókað flug, á miðvikudaginn í næstu viku. „Ég er rétt að byrja Ég er ekki einu sinni brunnin. Eins og staðan er akkúrat núna eru meiri líkur á að ég brenni en fái þennan vírus. Það er út af því sem ég ber bæði á mig sólarvörn og nota handspritt. Maður reynir að gera það sem maður getur.“

mbl.is

Kórónuveiran

29. mars 2020 kl. 13:53
1020
hafa
smitast
135
hafa
náð sér
25
liggja á
spítala
2
eru
látnir