„Matartips“ kom Röggu Eiríks til bjargar eftir synjun frá LSH

Ragnhildur Eiríksdóttir, eða Ragga Eiríks, greip til sinna ráða þegar …
Ragnhildur Eiríksdóttir, eða Ragga Eiríks, greip til sinna ráða þegar hún fékk neitun frá stjórn Landspítalans um að panta léttar veitingar á hálfan starfsdag hluta geðendurhæfingardeildar á Kleppi. Hún auglýsti eftir styrkjum á Matartips og þar stóð ekki á svörum. mbl.is/Árni Sæberg

„Einstækt tækifæri til að dekra við starfsfólk geðendurhæfingar.“ Á þessum orðum hefst færsla Ragnheiðar Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðings og teymisstjóra á dagdeild geðendurhæfingar á Kleppi, sem hún birti í hóp á Facebook í dag. 

Ástæðan er sú að Ragnheiður, eða Ragga eins og hún er jafnan kölluð, er að skipuleggja hálfan starfsdag í lok næsta mánaðar fyrir 12 manna þverfaglegt dagdeildarteymi deildarinnar. Þegar hún óskaði eftir því hjá stjórn spítalans að fá að panta léttan hádegisverð fyrir daginn fékk hún þau svör að það væri ekki mögulegt. Að vísu fær hver deild leyfi einu sinni á ári til að panta veitingar en Ragga kaus að nýta það ekki að þessu sinni þar sem aðeins um hluta deildarinnar er að ræða. 

„Við störfum með annarri endurhæfingardeild og síðar á þessu ári munum við gera eitthvað öll saman þannig að þetta eina skipti á ári sem við megum panta mat fannst mér ekki alveg hægt að nota í þessu tilfelli því þetta er bara fyrir þetta þverfaglega dagdeildarteymi,“ segir hún í samtali við mbl.is. 

Ragga leitaði til yfirmanns á fjármálasviði geðsviðs og fékk þær upplýsingar að ekkert stæði í vegi fyrir því að hún myndi leita utanaðkomandi styrkja. „Ég fékk svo ábendingu frá góðri vinkonu að setja þetta inn á Matartips,“ segir Ragga og vísar í fjölmennan hóp á Facebook þar sem áhugafólk um mat og ekki síst veitingastaði skiptist á skoðunum. Fjölmargir eigendur og rekstraraðila veitingastaða fylgjast eðlilega með umræðunni þar og ekki stóð á svörum. 

Samlokur, djús, súkkulaði og sörur

„Viðbrögðin voru vægast sagt snögg,“ segir Ragga. Aðeins örfáum mínútum eftir að hún birti færsluna fékk hún boð frá Joe and the Juice sem vilja með glöðu geði styrkja deildina um veitingar. Þá hafa Omnom og Vallywood bakarí boðist til að bjóða upp á súkkulaði og sörur með kaffinu. 

„Þeir sem hafa unnið í teymisvinnu vita að það er mikilvægt að komast aðeins út af vinnustaðnum og styrkja teymið og samstarfið með því að vera í nýju umhverfi,“ segir Ragga, en hún tók nýlega við stjórnunarstöðu á Landspítalanum eftir sex ára fjarveru frá spítalanum en hún segir að þetta hafi komið bæði henni og samstarfsfólki á óvart, þ.e. að mega einungis panta veitingar fyrir deildina einu sinni á ári. „Í fyrra var allt í lagi að panta samlokur á fundi en nú eru þessar hertu reglur komnar,“ segir Ragga og vísar í boðaðar aðhaldsaðgerðir á spítalanum sem kynntar voru í lok síðasta árs. 

Ragga segir að frá því að hún sneri aftur á Landspítalann hafi fleira komið henni vel og skemmtilega á óvart en illa. „Það er mikið að gerast í geðheilbrigðismálum, það hafa orðið miklar framfarir í þjónustunni.“ Hún segir það ekki góða þróun samt sem áður að deildir spítalans þurfi að vera upp á aðra komna, svo sem góðgerðasamtök og einkafyrirtæki, til að búa við almennilegt starfsumhverfi. 

mbl.is hefur sent fyrirspurn á Landspítalann varðandi hertar reglur um veitingakaup fyrir starfsmenn á deildum spítalans.

mbl.is