MDE segir Hæstarétt hafa brotið á Elínu

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur hafi …
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur hafi brotið á Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Landsbankans, sem dæmd var í Ímon-málinu í 18 mánaða fangelsi. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur braut á Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Landsbankans, við málsmeðferð þegar hún var dæmd í eins og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik og þátttöku í markaðsmisnotkun í hinu svokallað Ímon-máli. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu sem kvað upp dóm sinn í morgun.

Elín höfðaði mál gegn rík­inu fyr­ir MDE á þeim grund­velli að hluta­bréfa­eign þriggja dóm­ara við Hæsta­rétt Íslands í ís­lensku viðskipta­bönk­un­um fyr­ir hrun hefði haft áhrif á niður­stöðu þeirra í mál­inu. Málsmeðferðin í Hæsta­rétti hefði þannig verið á skjön við bæði ís­lensku stjórn­ar­skrána og ákvæði mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu.

Í dómi MDE er fallist á að hlutabréfaeign eins dómara málsins, Viðars Más Matthíassonar, hafi verið það mikil að hægt sé að taka undir með Elínu að seta hans í dóminum valdi hlutdrægni við málsmeðferð Hæstaréttar. Eru henni því dæmdar skaðabætur upp á 12 þúsund evrur auk 5 þúsund evra vegna málskostnaðar. Þó er tekið fram í dómi MDE að ekki sé hægt að fullyrða um áhrif Viðars á niðurstöðu Hæstaréttar. Þetta valdi því hins vegar að draga megi hlutlægni dómsins í efa og telst það brot á sjöttu grein mannréttindasáttmálans.

Bent er á að hlutabréfaeign Viðars í Landsbankanum hafi verið rúmlega 428 þúsund hlutir og nam tap hans um 8,5 milljónum þegar bankinn féll. Telur dómurinn því að tap hans hafi verið umtalsvert.

Hlutabréfaeign Eiríks Tómassonar, annars Hæstaréttardómara í málinu, í Landsbankanum var hins vegar 87.383 hlutir að verðmæti um 1,7 milljónir og urðu þeir verðlausir við fallið. Dómurinn telur þá upphæð ekki vera það verulega að hún eigi að valda vafa um hlutleysi dómsins.

Markús Sigurbjörnsson, þriðji dómarinn í Hæstarétti sem tiltekinn er í málinu, átti hins vegar enga hluti í Landsbankanum samkvæmt dóminum.

Dómurinn tekur sérstaklega fram að eign dómara í öðrum bönkum eða sjóðum hafi ekki áhrif í þessu tiltekna máli, en það var meðal þess sem lagt var með í málflutningi Elínar. Átti Markús meðal annars bréf í Glitni fyrir um 350 þúsund krónur, auk annarra fjárfestinga á fjármálamarkaðinum fyrir um 61,45 milljónir. Kemur fram að tap hans hafi verið um 7,6 milljónir vegna þess, eða rúmlega níuföld mánaðarlaun hans á þeim tíma.

MDE vísar einnig til þess að endurupptökunefnd hér á landi hafi horft til þessarar hlutabréfaeignar Viðars þegar hún heimilaði að mál Elínar yrði tekið upp aftur fyrir dómstólum hér á landi.

Elín hafði verið sýknuð í héraðsdómi, en Hæstiréttur sneri þeim dómi við. Taldi hún að þetta sýndi fram á að Hæstiréttur hefði fyrir fram gefið sér niðurstöðu í málinu. MDE tekur ekki undir þetta atriði og segir ekkert í gögnum málsins benda til þess.

Elín hafði farið fram á 2,5 milljónir evra í bætur í málinu, eða um 354 milljónir. Dómurinn sagði hins vegar að ekki hefði tekist að sýna fram á bein tengsl milli dómsins og þess fjártjóns og dæmdi henni sem fyrr segir 12 þúsund evrur.

mbl.is