Sakar yfirvöld um kæruleysi eftir smit á Tenerife

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Hari

Inga Sæland formaður Flokks fólksins gerði kórónuveirusmit og Íslendinga í sóttkví á Tenerife að umtalsefni sínu í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. Inga segir að íslensk stjórnvöld séu að taka á útbreiðslu COVID-19 með „kæruleysi“ og sakaði hún jafnframt sóttvarnalækni um „sofandahátt“.

Inga sagði að í fréttum í hádeginu hefði verið fjallað um að öngþveiti ríkti á flugvellinum á Tenerife, sökum þess að fólk væri að „reyna að komast þaðan burt“, en á sama tíma segði sóttvarnalæknir að ekki væri ástæða til þess að vara við ferðalögum til Tenerife.

Tekið skal fram að öngþveitið, sem vissulega er til staðar á alþjóðaflugvelli eyjunnar, er ekki vegna kórónuveirusmitsins og þess að fólk sé að flýja eyjuna í óðagoti.

Öngþveitið er vegna sandstormsins sem raskaði samgöngum til og frá Kanaríeyjum um helgina og var þetta öngþveiti hafið í gær eins og fjallað var um á mbl.is.

Finnst að það eigi að taka fastar á málunum

Inga Sæland virðist þó ekki ánægð með að fólk geti enn flogið til og frá Tenerife, þar sem eitt smit hefur greinst. „Ég get engan veginn áttað mig á þessum sofandahætti, mér er það algjörlega fyrirmunað,“ sagði Inga um tilmæli sóttvarnalæknis.

„Mér finnst þetta vera kæruleysi stjórnvalda sem ekki ætla að taka fastar á málunum, það eru að fara tvær flugvélar í dag til Tenerife, við vorum að fá tvær flugvélar frá Tenerife í dag. Við verðum að gera betur,“ segir Inga Sæland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert