Viðbúnaður vegna veiks farþega í vél Icelandair

Vélin var að koma frá Amsterdam til Keflavíkur og lenti …
Vélin var að koma frá Amsterdam til Keflavíkur og lenti um klukkan 15 í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Töluverður viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli um klukkan þrjú í dag þegar tilkynning barst um veikan farþega í flugvél Icelandair sem var að koma frá Amsterdam. Áhöfn hafði samband við embætti landlæknis vegna veikinda farþegans. 

„Það var fyrst og fremst til að fá ráðleggingar um hvernig ætti að haga sér í þessu máli. Miðað við þær lýsingar sem við fengum var ekkert sem gaf til kynna að um væri að ræða veikindi af völdum COVID-19,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í samtali við mbl.is.

Heilbrigðisstarfsmenn fóru um borð við lendingu og klæddust sérstökum hlífðarfötum af öryggisástæðum. „Þeir ræddu við þennan einstakling, sem var sannarlega veikur, en þetta leystist nokkuð farsællega.“ 

Kjartan segist eiga erfitt með að meta hvort gripið var til frekari öryggisráðstafana en vanalega í þessu tilfelli, sökum útbreiðslu kórónuveirunnar. „Flugfélögin hafa ákveðna ferla sem þau eiga að fylgja og til hvaða ferla er gripið veltur á aðstæðum um borð í flugvélinni. Það er þeirra sem eru um borð að meta og þau geta svo sett sig í samband við okkur.“

mbl.is